Bræður ákærðir fyrir hrottalegt dráp

Skugga brá á dönsku sumarparadísina Borgundarhólm í Eystrasalti í júní …
Skugga brá á dönsku sumarparadísina Borgundarhólm í Eystrasalti í júní þegar hrottalega útleikið lík tæplega þrítugs manns fannst snemma morguns í Nordskoven. Tveir bræður hafa nú verið ákærðir fyrir ódæðið, annar þeirra góðvinur fórnarlambsins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Małgorzata Miłaszewska

Vegfaranda á gönguferð um Nordskoven, nærri Rønne á dönsku eyjunni Borgundarhólmi í Eystrasalti, varð felmt við þegar hann gekk fram á illa útleikið lík á sjöunda tímanum að morgni 23. júní í sumar.

Augljóst var við aðkomuna að hinn látni hefði mætt skelfilegum örlögum þar í skóginum, líkið var þakið annars og þriðja stigs brunasárum og bar alls 39 áverka, þar af marga meiri háttar.

Rannsókn lögreglu leiddi fljótlega í ljós að líkið var af hinum dansk-tansaníska Phillip Mbuji Johansen, 28 ára gömlum, og leið ekki á löngu þar til böndin bárust að tveimur dönskum bræðrum, 23 og 25 ára gömlum, öðrum þeirra nánum vini Johansen, sem höfðu mælt sér mót við hann þar í skóginum að kvöldi dagsins áður.

Töldu Johansen hafa nauðgað móður þeirra

Að sögn bræðranna var ætlunin að hittast í Nordskoven, tendra þar varðeld og drekka bjór, en við aðalmeðferð málsins, sem hefst fyrir Héraðsdómi Rønne 30. nóvember, verður væntanlega leitt í ljós hvort bræðurnir hafi þegar, frá því lögð voru á ráðin um fundinn í skóginum, ætlað sér að ráða Johansen bana, sem horfir til refsiþyngingar, en þeir gáfu þá skýringu við yfirheyrslur í sumar að Johansen hefði nauðgað móður þeirra. Að sögn lögregluyfirvalda Borgundarhólms hafði þó engin kæra eða tilkynning um slíkt komið inn á borð lögreglu.

Bente Pedersen Lund saksóknari hefur nú gefið út ákæru í málinu þar sem bræðrunum er gefið að sök að hafa veist að fórnarlambi sínu fyrirvaralaust einhvern tímann á tímabilinu klukkan 01:35 til 02:21 að dönskum tíma, aðfaranótt 23. júní.

Hafi þeir lagt Johansen á bakið og annar þeirra hert að hálsi hans með hné sínu á meðan hinn sló hann í fæturna með trjágrein og síðar áfengisflösku. Í kjölfarið hafi bræðurnir stungið brotaþola, sparkað í hann, troðið á honum og brennt hann með glóandi röftum af bálinu. Leiddi rannsókn réttarmeinafræðings í ljós að Johansen hefði látist í síðasta lagi laust fyrir klukkan hálfþrjú þá um nóttina.

Neita sekt um manndráp

„Álit ákæruvaldsins er að það grófa ofbeldi sem hinn látni var beittur hljóti að bera því glöggt vitni að ákærðu var kunnugt um að líklegt væri að atlaga þeirra væri banvæn,“ segir Lund saksóknari í samtali við danska ríkisútvarpið DR.

Bræðurnir játa að hafa ráðist heiftúðlega að Johansen umrædda nótt en neita sök hvað manndráp snertir.

Lögregla rannsakaði í fyrstu hvort um svokallaðan hatursglæp væri að ræða þar sem fórnarlambið var af erlendu bergi brotið auk þess sem hné hafi verið lagt að hálsi þess, samanber víg hins þeldökka George Floyd í Minneapolis 25. maí í vor, en ákæruvaldið telur svo ekki hafa verið í ljósi eindreginnar neitunar bræðranna og þeirrar staðreyndar að Johansen og eldri bróðurnum hafði verið vel til vina um langt skeið.

„Ég tel engin sönnunargögn renna stoðum undir að um hatursglæp hafi verið að ræða þar sem þeir höfðu verið vinir svo lengi,“ segir saksóknari.

Gert er ráð fyrir að dómur falli í máli bræðranna snemma í desember.

DR

TV2

Jyllands-Posten

BT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert