Forsprakkar mótmælanna játa sig seka

Agnes Chow, Ivan Lam og Joshua Wong komu fyrir dóm …
Agnes Chow, Ivan Lam og Joshua Wong komu fyrir dóm í dag. AFP

Þrír ungir leiðtogar mótmælaöldunnar í Hong Kong, þar sem kínverskum yfirráðum hefur verið mótmælt og aukins lýðræðis krafist, hafa játað sig seka um að hafa skipulagt og tekið þátt í ólögmætri samkomu í mótmælunum í sjálfsstjórnarborginni á síðasta ári.

Joshua Wong, Agnes Chow og Ivan Lam eiga öll yfir höfði sér fangelsisvist verði þau fundin sek, en samkvæmt fréttaflutningi BBC munu þau þó sleppa við lífstíðardóm þar sem meint brot þeirra voru framin áður en stjórnvöld í Kína innleiddu ný öryggislög í júní.

Öll hafa þau tekið þátt í sjálfstæðisbaráttu Hong Kong síðan þau voru unglingar, en þar hefur Wong verið hvað mest áberandi. Hann var dæmdur til nokkurra ára langrar fangelsisvistar í kjölfar Regnhlífabyltingarinnar svokölluðu og sat raunar enn inni þegar stærsta mótmælaaldan til þessa hófst síðastliðið haust.

Hann var þó látinn laus á meðan á mótmælunum stóð og lét hann þá rakleiðis til sín taka og á yfir höfði sér nokkrar ákærur.

Í yfirlýsingu segir Wong að í kjölfar samtals við lögfræðinga þeirra hafi þremenningarnir ákveðið að breyta málsvörn sinni og játa sig sek. „Við munum halda áfram baráttu okkar fyrir frelsi, og núna er ekki tíminn til þess að krjúpa fyrir Peking og gefast upp.“

Dómur yfir þremenningunum verður kveðinn upp 2. desember.

mbl.is