Dæmdur í 40 ára fangelsi

Frá Seúl í dag.
Frá Seúl í dag. AFP

Höfuðpaur kynferðisglæpahóps var í dag dæmdur í 40 ára fangelsi í Suður-Kóreu en hann var fyrr á árinu ákærður fyrir að hafa leitt hóp sem kúgaði stúlk­ur og konur til þess að deila kyn­ferðis­leg­um mynd­skeiðum af sér. Myndskeiðin voru síðan birt á spjallrásum á Telegram þar sem fólk greiddi fyrir áhorf. 

Cho Ju-bin, sem er 25 ára gamall, rak starfsemi hópsins frá því í maí fyrra þangað til í febrúar. Hann var dæmdur fyrir að kúga 74 manneskjur og af þeim voru 16 undir lögaldri.  

Niðurstaða héraðsdóms í Seúl er að vegna alvarleika brotanna og hversu margir þolendur Cho eru sé nauðsynlegt að einangra hann frá samfélaginu í langan tíma. Saksóknarar höfðu farið fram á lífstíðarfangelsi yfir Cho en hann hefur viku til að áfrýja niðurstöðunni. 

Fimm einstaklingar sem aðstoðuðu Cho við glæpina voru dæmdir í sjö til 15 ára fangelsi fyrir brot sín.

mbl.is