Algjör landamæraopnun ólíkleg 2021

Ástralskir heilbrigðisstarfsmenn skima fyrir kórónuveirunni.
Ástralskir heilbrigðisstarfsmenn skima fyrir kórónuveirunni. AFP

Ólíklegt þykir að Ástralar opni landamæri sín að fullu á þessu ári, þ.e. lyfti öllum hömlum þar, jafnvel þótt stærstur hluti áströlsku þjóðarinnar verði bólusettur í ár eins og gert er ráð fyrir. Þetta segir Brendan Murphy, heilbrigðisráðherra Ástralíu.

Murphy lét ummælin falla þegar hann var spurður um uppgang kórónuveirunnar erlendis. Þau dempa vonir flugfélaga um að ferðalög til og frá landinu geti hafist í júlímánuði. Murphy leiddi snemmtæka ákvörðun Ástrala um að loka landamærum landsins, með undantekningum, í mars síðastliðnum. 

„Ég held að stærstan hluta ársins muni takmarkanir vera í gildi á landamærunum,“ sagði Murphy í sjónvarpsviðtali í dag.

„Jafnvel þótt mjög stór hluti þjóðarinnar verði bólusettur vitum við ekki hvort það muni koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.“

Qantas bjóst við öðru

Þá bætti Murphy því við að reglur um sóttkví fyrir ferðamenn myndu gilda í „nokkurn tíma“ áfram.

Áströlskum ríkisborgurum og fólki með sérstakar undanþágur er heimilt að koma til Ástralíu ef þeir sæta 14 daga sóttkví á hóteli við komuna á eigin kostnað. 

Ástralska flugfélagið Qantas opnaði aftur á bókanir fyrr í janúarmánuði eftir að flugfélagið sagðist búast við því að ferðalög gætu hafist aftur frá júlímánuði. Það væri þó háð ákvörðun stjórnvalda.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina