Bólusetningu verði lokið í september

Annie Lynch var fyrsta manneskjan á Írlandi til að vera …
Annie Lynch var fyrsta manneskjan á Írlandi til að vera bólusett með bóluefni Pfizer/BioNTech við kórónuveirunni. Hér sést þegar hún fékk seinni sprautuna á þriðjudaginn. AFP

Írsk stjórnvöld ætla að vera búin að bólusetja alla borgara landsins við kórónuveirunni í september. Þetta sagði Stephen Donnelly, heilbrigðisráðherra landsins.

„Við erum að skipuleggja okkur miðað við birgðir af bóluefnum sem þýðir að í september verður búið að bólusetja alla borgara,“ sagði Donnelly á neðri deild þingsins.

Hann sagði þessa áætlun stjórnvalda ekki vera niðurnjörvaða heldur byggja á því hvenær áætlað er að bóluefni komi til landsins. Evrópusambandið á eftir að samþykkja einhver þeirra.

„Þessi tímalína er ekki fullmótuð,“ sagði hann við þingmenn og bætti við að stórar miðstöðvar fyrir bólusetningar verði opnaðar víðsvegar um landið snemma í febrúar.

Stephen Donnelly, lengst til vinstri, eftir að fyrsti skammturinn af …
Stephen Donnelly, lengst til vinstri, eftir að fyrsti skammturinn af bóluefni Pfizer BioNTech kom til Írlands í lok síðasta árs. AFP

Búið er að bólusetja 94 þúsund manns á Írlandi með fyrri skammti af bóluefni. Stefnt er á að ljúka bólusetningu 140 þúsund manns í lok þessarar viku.

2.768 manns hafa látist af völdum Covid-19 á Írlandi, samkvæmt nýjustu tölum.

mbl.is