Staðfesta andlát 9 námamanna

AFP

Níu námaverkamenn, sem voru meðal rúmlega 20 verkamanna sem sátu fastir á rúmlega 500 metra dýpi í tvær vikur, eru látnir. Kínversk yfirvöld staðfestu andlát þeirra en 11 verkamönnum var bjargað í gær af þeim 22 sem lokuðust niðri í námunni.

Í gær var upplýst um að einn væri látinn en nú að allir aðrir sem voru í námunni og ekki voru komnir upp á yfirborðið væru látnir.

AFP

Inngangur Husan-námaganganna lokaðist þegar hann féll saman eftir sprengingu 10. janúar. Ekki er vitað hvað olli sprengingunni við Husan-gullnámuna í Shandong-héraði.

Sá fyrsti sem var bjargað í gær var með bundið fyrir augun til að verja þau fyrir birtu og fluttur með hraði á sjúkrahús. Ástand hans var metið mjög alvarlegt. Ástand hinna tíu var mismunandi og gátu einhverjir þeirra gengið sjálfir en aðrir þurftu á stuðningi að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert