100.000 látnir í Bretlandi – Boris miður sín

Fleiri en 100.000 hafa nú fallið frá í Bretlandi vegna Covid-19. Forsætisráðherra landsins segist taka „fulla ábyrgð“ á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í faraldrinum. 

„Við gerðum sannarlega allt sem við gátum,“ sagði Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands vegna þessa í dag. „Ég er miður mín yfir hverju einasta lífi sem hefur tapast. 

Alls hafa 100.162 dauðsföll verið skráð í Bretlandi vegna Covid-19. Engin önnur Evrópuþjóð hefur skráð fleiri dauðsföll vegna Covid-19 en Bretar. Fjögur önnur lönd í heiminum hafa skráð fleiri en 100.000 dauðsföll vegna Covid-19 en þau eru Bandaríkin, Brasilía, Indland og Mexíkó.

Á blaðamannafundi í dag sagði Johnson að það væri erfitt „að gera grein fyrir sorginni sem fælist í þessari dapurlegu tölfræði“. Þá sendi hann þeim sem misst hafa ástvini sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Verulegur uppgangur hefur verið í faraldrinum í Bretlandi undanfarið og er bráðsmitandi afbrigði veirunnar sérstaklega kennt um þá þróun. 

Frétt BBC

Boris Johnson forsætisráðherra segist sorgmæddur yfir fréttum dagsins.
Boris Johnson forsætisráðherra segist sorgmæddur yfir fréttum dagsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert