Samþykkja bóluefni AstraZeneca

Stella Kyriakides, sem stýrir heilbrigðismálum í framkvæmdastjórn ESB, á blaðamannafundi …
Stella Kyriakides, sem stýrir heilbrigðismálum í framkvæmdastjórn ESB, á blaðamannafundi í dag. AFP

Lyfjastofnun Evrópu hefur veitt leyfi fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca fyrir fólk eldra en átján ára. Ætla má að það verði gert í kjöl­farið hér á landi nokkuð fljót­lega.

For­stjóri Lyfja­stofn­un­ar sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag, að ná­ist það ekki í dag verði það von­andi gert á morg­un.

„Það er fólk á vakt hjá okk­ur í dag og fram á kvöld. Ef þetta næst ekki í dag þá verðum við að halda áfram á morg­un. Þetta fer allt eft­ir því hvaða upp­lýs­ing­ar koma frá Lyfja­stofn­un Evr­ópu og hvenær, það eru þær tíma­setn­ing­ar sem við erum að vinna með,“ sagði forstjórinn Rúna Hauksdóttir.

Standa í deilum á sama tíma

Samþykki stofnunarinnar kemur á sama tíma og Evrópusambandið stendur í harðvítugum deilum við AstraZeneca um ákvæði samnings þeirra í millum.

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins birti fyrr í dag rit­skoðaða út­gáfu af samningnum, í von um að sanna að fyr­ir­tækið hafi brotið í bága við ákvæði samn­ings­ins um af­hend­ingu bólu­efnis við kór­ónu­veirunni.

Fram­kvæmda­stjórnin hef­ur brugðist illa við því að fram­leiðslu­örðug­leik­ar bitni ein­ung­is á af­hend­ingu bólu­efn­is til sam­bands­ins en ekki til Bret­lands, en stjórnvöld þar í landi sömdu við framleiðandann þremur mánuðum á undan sambandinu.

Notaði fyr­ir­tækið tím­ann til að leysa vanda­mál við fram­leiðslu og af­hend­ingu frá verk­smiðjum sín­um í Bretlandi. Vandamál við framleiðslu í Belgíu hafa hins vegar valdið töfum á afhendingu til ríkja Evrópusambandsins.

mbl.is