Tvær sögur – einn sannleikur

Stine Sofie Sørstrønen og Lena Sløgedal Paulsen áttu ekki afturkvæmt …
Stine Sofie Sørstrønen og Lena Sløgedal Paulsen áttu ekki afturkvæmt úr sundferð sinni á Baneheia-útivistarsvæðinu í Kristiansand í maí árið 2000. Tveimur dögum síðar fundust lík þeirra falin í gjótu og varð fundurinn upphafið að einu umtalaðasta sakamáli síðari ára í Noregi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Í sjöundu atlögu sinni að norsku endurupptökunefndinni í sakamálum, Gjenopptakelseskommisjonen, sem starfar í skjóli hegningarlaga landsins, fékk Viggo Kristiansen loksins meðbyr. Í 369 blaðsíðna löngum rökstuðningi sínum, sem nefndin lagði fram 18. febrúar, lagði hún svo á og mælti, með atkvæði þriggja nefndarmanna gegn tveimur, að Baneheia-málið svokallaða skyldi opnað og tekið til rannsóknar á nýjan leik.

Málið snýst um örlög vinkvennanna Lenu Sløgedal Paulsen, 10 ára, og Stine Sofie Sørstrønen, 8 ára, föstudaginn 19. maí árið 2000. Þetta var góðviðrisdagur og þær vinkonur voru í heimsókn hjá feðrum sínum sem bjuggu í sama húsinu í Grim-hverfinu skammt frá miðbænum í Kristiansand í Suður-Noregi.

Lena og Stine ákváðu að gera sér ferð til Baneheia, vinsæls útvistarsvæðis í bænum, og fá sér þar sundsprett í einu vatnanna í þessari skógi vöxnu náttúruparadís. Úr þeirri för sneru þær vinkonurnar aldrei aftur, vitni kváðust hafa séð til þeirra á sundi klukkan 18:50 um kvöldið í vatninu 3. Stampe, Tredje Stampe, er dregur nafn sitt af myllu sem fékk vatn sitt úr því á 18. öld.

Nauðgað og stungnar til bana

Umfangsmikil leit var gerð að vinkonunum og fundust lík þeirra að kvöldi 21. maí, tveimur sólarhringum eftir að tekið var að undrast um afdrif þeirra. Voru líkin falin í gjótu, en stúlkunum hafði verið nauðgað og þær svo stungnar til bana og voru hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak þegar þær fundust.

Málið hlaut gríðarlega athygli norskra fjölmiðla og almennings og var áberandi í umræðunni allt sumarið 2000. Það var svo 13. september sem lögregla handtók tvo menn, Viggo Kristiansen, sem nú sér fram á endurupptöku, og Jan Helge Andersen, en báðir bjuggu skammt frá vettvangi ódæðisins.

Málið naut óskiptrar athygli norskra fjölmiðla allt árið 2000 og …
Málið naut óskiptrar athygli norskra fjölmiðla allt árið 2000 og urðu vatnaskil við rannsókn þess þegar þeir Viggo Kristiansen og Jan Helge Andersen voru handteknir 13. september þá um haustið. Hefur Kristiansen haldið sakleysi sínu fram í rúm 20 ár, en hann var dæmdur á grundvelli framburðar Andersens og DNA-sýnis sem hefði getað átt rætur sínar að rekja til 54,6 prósenta norskra karlmanna. Samsett ljósmynd/Journalisten.no

Sönnunargögnin gegn Andersen þóttu óyggjandi, eitt hár af honum fannst á vettvangi og tengdi DNA-greining á því hann málinu með fullri svörun og án þess að minnsta vafa væri undirorpið. Öðru máli gegndi um Kristiansen. Gegn honum fundust engin áþreifanleg sönnunargögn og neitaði hann staðfastlega að hafa komið nálægt árásinni á stúlkurnar.

Kvað Kristiansen hafa lagt á ráðin

Andersen stóð hins vegar á því eins og hundur á roði að Kristiansen hefði lagt á ráðin um ódæðið og sannfært hann um að fremja það með sér. Rannsókn og réttarhöld tóku sinn tíma og féll dómur í Héraðsdómi Kristiansand árið 2002. Hlaut Andersen þar 17 ára fangelsi og var honum metið til refsilækkunar að hafa játað og auk þess veitt lögreglu aðstoð við að varpa ljósi á rás atburða. Kristiansen hlaut hins vegar 21 árs fangelsi.

Eftir áfrýjun málsins til Lögmannsréttar Agder hlaut Kristiansen þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa, 21 árs varðveisludóm, eða forvaring á norsku, en sú refsing var tekin upp í norsk hegningarlög árið 2001 og gerir það mögulegt að loka brotamann inni til æviloka með reglulegum framlengingum fangelsisvistar, án nýrra réttarhalda. Slíkan dóm hlaut Anders Breivik á sínum tíma en Kristiansen var fyrstur til að hljóta þessa refsingu í Noregi eftir lagabreytinguna.

Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen er …
Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen er í dag 41 árs gamall og situr enn inni, enda hlaut hann svokallaða varðveislu, eða forvaring, sem getur verið grundvöllur ævilangs fangelsis. Andersen er hins vegar frjáls maður eftir að hafa afplánað 19 ára dóm. Ljósmynd/Úr einkasöfnum

Refsing Andersens var þyngd í 19 ár og vildi lögmannsréttur ekki fallast á refsilækkun vegna játningar og samstarfsfýsi, játning sakbornings hefði fyrst komið fram fjórum mánuðum eftir víg stúlknanna og eftir að honum hafði verið greint frá DNA-sönnunargagninu gegn honum.

Báðir áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar sem hafnaði fyrirtöku máls Kristiansens en staðfesti 19 ára dóminn yfir Andersen sem í dag hefur lokið afplánun sinni og er frjáls maður.

Hefði getað tilheyrt 54,6 prósentum

Erfðaefni tveggja manna fannst á vettvangi og voru sýnin rannsökuð á réttarmeinarannsóknarstofunni í Santiago de Compostela á Norðvestur-Spáni, en hún hefur á að skipa sérfræðingum sem teljast með þeim fremstu í heiminum á sviði erfðarannsókna í sakamálum.

Hárið var sem fyrr segir tengt við Andersen með fullri DNA-svörun. Hitt sýnið skilaði ekki niðurstöðu annarri en þeirri að það hefði getað komið frá Kristiansen, en það hefði líka getað komið frá 54,6 prósentum allra norskra karlmanna. Andersen tilheyrði hins vegar ekki þeim 54 prósentum, ókunna erfðaefnið gat ekki verið hans.

Símafyrirtækið Telenor lagði einnig fram gögn um að farsími Kristiansens hefði verið á heimili hans að kvöldi þess dags sem Lena og Stine hurfu og þar kvaðst Kristiansen sjálfur einnig hafa haldið til þegar stúlkurnar mættu örlögum sínum.

Tvær sögur – einn sannleikur

Var dómurinn yfir Kristiansen því einkum byggður á framburði Andersens, en einnig að hluta á vafasama erfðaefninu og mati dómsins á sennileika sektar hans. Sótti Kristiansen fyrst um endurupptöku árið 2008 og reglulega síðan auk þess að kæra Andersen fyrir rangar sakargiftir.

Stöðuvatnið 3. Stampe, eða Tredje Stampe, þar sem síðast sást …
Stöðuvatnið 3. Stampe, eða Tredje Stampe, þar sem síðast sást til stúlknanna á sundi klukkan 18:50 föstudaginn 19. maí vorið 2000. Ljósmynd/Wikipedia.org/Cocu

Endurupptökunefndin hafði málið til meðferðar í sjöundu fyrirtöku sinni, sem stóð frá 2019 og þar til nú fyrir rúmri viku, og komst að þeirri niðurstöðu, að fengnu áliti sérfræðinga, að erfðaefnið, sem hugsanlega hefði getað átt rætur sínar að rekja til Kristiansens, væri ótækt sem sönnunargagn.

Árið 2017 kom bókin Drapene i Baneheia. To historier. En sannhet út, eða Drápin í Baneheia. Tvær sögur. Einn sannleikur, eftir norska rithöfundinn og blaðamanninn Bjørn Olav Jahr. Hélt höfundur því þar fram að refsing Kristiansens væri dómsmorð, þar hefði saklaus maður verið dæmdur, og vísaði hann til DNA-þáttarins máli sínu til stuðnings, símagagnanna og þess að framburður Andersens einn hefði legið sakfellingu til grundvallar.

Mæðurnar fylgjandi endurupptöku

Verður málið nú rannsakað á nýjan leik og hefur ríkissaksóknari falið héraðssaksóknaraembættinu í Ósló rannsóknina og í framhaldinu mat á því hvort mál Kristiansens verði rekið á ný fyrir dómstólum eða hvort hann, eftir atvikum, hljóti sýknu án réttarhalda. Hann skal hins vegar sitja bak við lás og slá í Ila-fangelsinu í Bærum meðan mál hans er til rannsóknar.

Endurupptökunefndin sem ákvað með naumum meirihluta, þremur atkvæðum gegn tveimur, …
Endurupptökunefndin sem ákvað með naumum meirihluta, þremur atkvæðum gegn tveimur, að ástæða væri til að rannsaka mál Viggo Kristiansens á nýjan leik. Frá vinstri: Dag Jodaa héraðsdómari, Arne Gunnar Aas lögmaður, Elin Ramleth Østli endurskoðandi, Siv Hallgren, lögfræðingur og nefndarformaður, og Tor Ketil Larsen, yfirlæknir við Háskólasjúkrahúsið í Stavanger. Hallgren og Larsen greiddu atkvæði sín gegn endurupptöku. Ljósmynd/Endurupptökunefndin/Gjenopptakelseskommisjonen

Mæður stúlknanna myrtu, Ada Sofie Austegard og Klara Sløgedal, eru fylgjandi endurupptöku málsins og segjast í samtali við norska ríkisútvarpið NRK vilja að allur sannleikurinn verði dreginn fram í dagsljósið þótt þeim sé þungbært að þurfa að fylgjast með því ferli. Hafa þær ráðið sér lögmanninn Audun Beckstrøm til að gæta hagsmuna aðstandenda meðan á rannsókn málsins stendur.

NRK

NRKII (DNA-þátturinn)

NRKIII (rætt við mæðurnar)

VG

Dagbladet

TV2

Dagsavisen

mbl.is