Afnema grímuskyldu í Texas

Greg Abbott (t.v.) tók á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta (t.h.) …
Greg Abbott (t.v.) tók á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta (t.h.) í lok febrúar í kjölfar mannskæðs vetrarstorms. AFP

Grímuskylda verður afnumin og fyrirtækjum heimilað að opna starfsemi sína að fullu í Texas-ríki frá og með næstu viku. Ríkisstjórinn Greg Abbott tilkynnti um áformin í dag. 

„Nú er kominn tími til að enduropna Texas 100%,“ sagði repúblikaninn á blaðamannafundi í dag. 

Abbott var gagnrýndur meðal flokkssystkina sinna fyrir að hafa sett á grímuskyldu í júlí síðasta árs. Texas er stærsta ríki Bandaríkjanna til að afnema grímuskyldu hingað til. Yfir 42.000 íbúar ríkisins hafa látist af völdum Covid-19 frá því faraldurinn hófst. 

„Of margir íbúar Texas hafa misst af atvinnutækifærum. Of margir eigendur smárra fyrirtækja hafa átt erfitt með að greiða reikninga. Þessu verður að ljúka,“ sagði Abbott. 

Abbott sagði að bólusetningar gegn veirunni og bætt meðferðarúrræði við Covid-19 hafi gert það að verkum að ríkið sé „í mun betri stöðu núna“.

„Covid hefur ekki skyndilega horfið, en ekki er lengur þörf á takmörkunum,“ sagði Abbott. 

Tate Reeves, ríkisstjóri Mississippi, tilkynnti einnig í dag að frá og með morgundeginum verði grímuskyldu í ríkinu aflétt og engar takmarkanir verði settar á fyrirtæki og þjónustu. 

Dauðsföllum og nýjum smitum í Bandaríkjunum hefur farið fækkandi á síðustu vikum, en sérfræðingar hafa varað við því að þeirri þróun gæti vel verið snúið við ef yfirvöld aflétti takmörkunum of snemma. 

mbl.is