Solberg formlega grunuð

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, situr í súpunni eftir fjölskylduboð í …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, situr í súpunni eftir fjölskylduboð í tilefni sextugsafmælis hennar í lok febrúar og hafa þau Sindre Finnes maður hennar nú stöðu grunaðra. Þrettán komu saman á veitingastað í Geilo fyrra kvöldið, reyndar þó ekki afmælisbarnið sjálft sem þurfti að rjúka á sjúkrahús í Ósló vegna augnvandamála, og 14 síðara kvöldið, ráðherra þá einnig. AFP

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og eiginmaður hennar, Sindre Finnes, hafa nú bæði stöðu grunaðra í afmælismálinu svokalla, sem snýst um brot á reglum um fjöldatakmarkanir vegna veirufaraldursins þegar ráðherra hélt upp á sextugsafmæli sitt í skíðaparadísinni Geilo í lok febrúar þar sem 13 komu saman fyrri daginn en 14 þann síðari. Samkomur fleiri en tíu manns voru á þeim tíma bannaðar.

Per Morten Sending, lögmaður lögreglu í suðausturumdæminu, upplýsir norska fjölmiðla um þetta, sem enn fremur greina frá því að yfirheyrslur séu hafnar yfir þeim hjónum. Þeim er þó ekki lokið.

Sektin 20.000 norskar krónur

„Yfirheyrslu er ekki lokið fyrr en öllum spurningum hefur verið svarað, skráning samtalsins prentuð út, lesin yfir og samþykkt. Þangað erum við ekki komin,“ upplýsir lögmaðurinn norska dagblaðið VG í dag. „Forsætisráðherra og eiginmaður hennar liggja undir grun um brot á sóttvarnareglum í málinu.“

Kveður Sending vonir standa til að yfirheyrslum ljúki í vikunni og verði hjónin sek fundin mega þau vænta 20.000 króna sektar, jafnvirði um 300.000 íslenskra króna.

Erna Solberg, sem í dag verður við útför verkalýðsleiðtogans fyrrverandi, Hans-Christian Gabrielsen, hefur þegar beðið þjóð sína forláts í viðtölum og sagst þar ekki eiga sér neinar málsbætur. „Ég tel það fullkomlega eðlilegt þegar við höfum ef til vill brotið reglur, að þeir [lögreglan] meti það og ég hljóti þar sömu meðferð og hver annar,“ sagði forsætisráðherra við norska ríkisútvarpið NRK á föstudaginn, eftir að veisluhöldin komust í hámæli.

Fredrik Solvang, fréttamaður NRK, ræðir málið við Ernu Solberg í …
Fredrik Solvang, fréttamaður NRK, ræðir málið við Ernu Solberg í þættinum Debatten á NRK þar sem hún bað þjóð sína innilegrar afsökunar á yfirsjóninni. Einnig hefur hún tjáð hug sinn í löngu máli á Facebook og kveðst greiða þá sekt sem henni beri verði hún sek fundin. Skjáskot/Debatten

Enn fremur sagði Solberg að sér þætti eðlilegt að þeim yrði gerð sekt, yrði brot sannað, og sú sekt yrði að sjálfsögðu gerð upp. Hún tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem meðal annars sagði:

„Við vorum fjórum of mörg. Við hefðum ekki átt að hafa þetta á þennan veg og ég hefði átt að stöðva það. Ég gerði það ekki og á því get ég bara beðist afsökunar.“

NRK

VG

Nettavisen

Dagsavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert