Bóluefnaframleiðandi biðlar til Bidens

SII sér meðal annars um framleiðslu bóluefnaskammta fyrir Covax-verkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
SII sér meðal annars um framleiðslu bóluefnaskammta fyrir Covax-verkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AFP

Framkvæmdastjóri stærsta bóluefnaframleiðanda heims hefur ávarpað Joe Biden Bandaríkjaforseta beint með færslu á Twitter þar sem hann biður um að útflutningsbanni á hráefni fyrir framleiðslu bóluefnis frá Bandaríkjunum verði aflétt.

Þessi óvenjulega leið framkvæmdastjóra hins indverska Serum Institude (SII), Adars Poonawalla, er talið undirstrika það hversu erfiðlega gengur að útvega bóluefni fyrir þróunarlönd, sem reiða sig að miklu leyti á framleiðslu SII. 

SII er hlutfallslega stærsti framleiðandi bólefnis gegn kórónuveirunni í heiminum, en hefur átt í erfiðleikum með að svara eftirspurn eftir AstraZeneca vegna hráefnisskorts, ekki síst eftir að indversk stjórnvöld ákváðu að hægja á útflutningi bóluefnisins vegna þess hversu skæð önnur bylgja faraldursins hefur verið í landinu.

Poonawalla sagði í síðustu viku að mikið álag væri á framleiðslunni og kallaði eftir fjárhagsaðstoð frá indverskum stjórnvöldum.

Þá framleiðir SII einnig bóluefni sem þróað var af bandarísku stofnuninni Novavax, auk þess sem fyrirtækið gerði samning við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um framleiðslu 200 milljón skammta fyrir Covax-verkefnið, sem leggur áherslu á dreifingu bóluefnis til fátækari þjóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert