Jimmy Lai í 12 mánaða fangelsi

Lai var meðal þeirra níu sem taldir eru hafa verið …
Lai var meðal þeirra níu sem taldir eru hafa verið aðalforsprakkar mótmælanna. AFP

Fjölmiðlamógúllinn Jimmy Lai var meðal þeirra sem dæmdir voru til fangelsisvistar í dag, föstudag, fyrir að hvetja til og koma að skipulagningu mótmæla í Hong Kong. Mun Lai þurfa að sæta 12 mánaða fangelsisvist vegna aðkomu hans að mótmælunum, sem voru ein þau stærstu í sögu borgarinnar.

Skipuleggendur segja um 1,7 milljónir hafa tekið þátt í mótmælunum, sem telur um fjórðung allra borgarbúa. Mótmælin stóðu yfir mestan hluta árs 2019 og var markmið þeirra aukið lýðræði sjálfsstjórnarborgarinnar.

Kínversk stjórnvöld hafa hert tök sín á þingi Hong Kong verulega síðan mótmælaöldunni lauk og takmarkað verulega réttinn til mótmæla.

Lai var meðal þeirra níu sem taldir eru hafa verið aðalforsprakkar mótmælanna, en margir þeirra hafa staðið í lýðræðisbaráttu Hong Kong árum saman og verið talsmenn friðsælla aðgerða sem hafa lítinn árangur borið.

Meðal annarra sem dæmdir voru til fangelsisvistar eru Martin Lee, sem er gjarnan kallaður faðir lýðræðis Hong Kong, en hann var einn þeirra sem stórnvöld í Peking völdu til þess að skrifa stjórnarskrá sjálfsstjórnarhéraðsins á sínum tíma. Lee hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir dómstólum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert