Ungmenni dæmd í lífstíðarfangelsi

Gabriel Natale-Hjorth og Finnegan Lee Elder voru í gær dæmdir …
Gabriel Natale-Hjorth og Finnegan Lee Elder voru í gær dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa drepið lögregluman í Róm fyrir tveimur árum. Þá voru þeir 18 og 19 ára gamlir. AFP

Tveir ungir Bandaríkjamenn voru dæmdir í lífstíðarfangelsi á Ítalíu í gær fyrir dráp á lögreglumanni þegar þeir voru í sumarleyfi í Róm fyrir tveimur árum.

Finnegan Lee Elder, sem er 21 árs í dag en var 19 ára á þeim tíma, hefur játað að hafa stungið lögreglumanninn Mario Cerciello Rega í Róm í júlímánuði árið 2019 með vini sínum Gabriel Natale-Hjorth, 20 ára.

Saksóknarar lýstu hrottalegri og tilefnislausri árásinni þar sem Elder stakk Cerciello 11 sinnum með stórum hníf. Tvímenningarnir báru við sjálfsvörn og sögðu lögreglumennina hafa komið aftan að þeim og þeir hafi talið að þeir tengdust misheppnuðum fíkniefnaviðskiptum fyrr um daginn.

Finnegan Lee Elder hlýðir á dómsuppkvaðninguna.
Finnegan Lee Elder hlýðir á dómsuppkvaðninguna. AFP

Réttarhöldin stóðu yfir í meira en ár og voru lýsingar saksóknara og ungu mannanna að atburðarrásinni gjörólíkar en lykilvitni saksóknara var félagi Cerciello sem var með honum þegar hann var stunginn til bana. 

Dómarinn sem fór með málið í héraðsdómi í Róm, Marina Finiti, lýsti tvímenningana seka um öll ákæruatriði og dæmdi þá í þyngstu heimiluðu refsingu á Ítalíu – lífstíðarfangelsi.

Elder var studdur út úr réttarsalnum eftir að dómurinn var lesinn upp þar sem hann var við það að missa meðvitund. Natale-Hjorth, sem ekki beitti morðvopninu, en aðstoðaði Elder við að fela það, hlaut sömu refsingu.

Rosa Maria Esilio, ekkja Mario Cerciello.
Rosa Maria Esilio, ekkja Mario Cerciello. AFP

Ekkja Cerciello, Rosa Maria Esilio, var viðstödd dómsuppkvaðninguna og brast í grát þegar niðurstaðan var ljós. „Þetta voru löng og sársaukafull réttarhöld,“ sagði hún fyrir utan réttarsalinn og bætti við að niðurstaðan muni ekki færa henni eiginmanninn aftur. 

Mjög hefur verið deilt um málið á Ítalíu og ekki síst framgöngu lögreglunnar. Tvímenningarnir segja að hvorugur lögreglumannanna hafi sýnt skjöld sinn né kynnt sig sem lögreglumenn áður en átökin hófust. Verjendur Elders og Natale-Hjorth segja að niðurstöðunni verði áfrýjað enda sé dómurinn hneisa fyrir ítalskt réttarkerfi. 

Dauði Cerciello, sem var nýkominn til starfa eftir brúðkaupsferðalag, kom af stað samúðarbylgju meðal íbúa Ítalíu og var útförin sýnd beint í sjónvarpinu. Þar var honum lýst sem hetju. 

Kviðdómur tók sér 11 klukkustundir til að komast að niðurstöðu en hann horfði fram hjá atriðum sem komu fram við réttarhöldin. Svo sem ósamræmi í yfirlýsingum lögreglu. 

Meðal þess er að bundið var fyrir augu Natale-Hjorth þegar hann var yfirheyrður af lögreglu, fölsuð lögregluskýrsla og lygi félaga Cerciello um að hann hafi verið vopnaður þegar árásin var gerð. 

Gabriel Natale-Hjorth sést hér leiddur út úr réttarsalnum í gær.
Gabriel Natale-Hjorth sést hér leiddur út úr réttarsalnum í gær. AFP

Málinu hefur verið líkt við réttarhöldin yfir Amöndu Knox, bandarískri námskonu sem var dæmd og síðar sýknuð fyrir morð á Ítalíu árið 2007.

Atburðarásin fyrir drápið er ruglingsleg að mörgu leyti, allt frá því þegar tvímenningarnir reyndu að kaupa kókaín fyrr um daginn þangað til þeir drápu lögreglumanninn um nóttina í sama hverfi og fjögurra stjörnu hótelið er þar sem þeir gistu.

Það sem átti að vera kókaín reyndist vera aspirín og í hefndarskyni stálu tvímenningarnir poka af fíkniefnasalanum og kröfðust þess að fá peninga og fíkniefni í skiptum fyrir pokann.

Fíkniefnasalinn reyndist vera heimildarmaður lögreglu og tilkynnti hann lögreglu um þjófnaðinn. Í kjölfarið komu þeir Cerciello og félagi hans, Varriale, á staðinn þar sem vöruskiptin áttu að fara fram – árásarstaðinn. 

Finnegan Lee Elder sést hér ræða við foreldra sína Ethan …
Finnegan Lee Elder sést hér ræða við foreldra sína Ethan og Leah Elder við réttarhöldin í gær. AFP

Natale-Hjorth, sem lenti í átökum við Varriale, segir að hann hafi ekki haft hugmynd um að félagi hans, Elder, væri með hníf á sér. Elder, sem bar ekki vitni við réttarhöldin, sagði í yfirlýsingu sem lesin var upp við réttarhöldin að hann bæðist afsökunar á því að hafa drepið Cerciello og hann myndi aldrei fyrirgefa sjálfum sér. Í yfirlýsingunni ítrekaði hann áfallið og hræðsluna sem hann upplifði þegar hann taldi að lögreglumennirnir væru fautar sem ætluðu að ráðast á þá.

„Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að trúa manneskju sem er í sömu stöðu og ég. En það sem ég segi ykkur í dag er sannleikurinn.  Líkt og ég sagði sannleikann á þeim tíma,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Elders.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert