Fjögurra ára meðal særðra

AFP

Fjögurra ára gömul stúlka varð fyrir skoti þar sem hún var með fjölskyldu sinni að kaupa leikföng við Times Square í gær. Auk stúlkunnar særðust tvær konur í skotárásinni sem var gerð um miðjan dag á einum fjölfarnasta stað New York-borgar.

Að sögn lögreglustjórans í New York, Dermot Shea, eru engin tengsl á milli kvennanna tveggja og stúlkunnar og árásarmannsins heldur lentu þær á milli tveggja til fjögurra manna sem tókust á. Rifrildi þeirra endaði með því að minnsta kosti einn þeirra þreif upp byssu og skaut. Enginn hefur enn verið handtekinn vegna þessa en lögregla hefur biðlað til þeirra sem urðu vitni að árásinni að gefa sig fram. Jafnframt hefur hún birt myndskeið úr öryggismyndavél af manninum sem er leitað vegna árásarinnar.

Atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan 17 að staðartíma, klukkan 21 að íslenskum tíma, á mótum sjöundu breiðgötu og 44. strætis.

Litla stúlkan var í kerru þegar hún varð fyrir skoti en hún, líkt og konurnar, var skotin í fótinn. Þær eru allar á sjúkrahúsi en engin þeirra er í lífshættu. 

AFP

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum fyrirtækja við Times Square og nágrenni hefur glæpum fjölgað á þessu svæði á Covid-tímum. Á fyrsta ársfjórðungi voru skráðir 25 ofbeldisglæpir þar samanborið við 17 á sama tímabili árið á undan. 

Stefnt er að því að opna leikhúsin í hverfinu 14. september en þau hafa verið lokuð frá upphafi kórónuveirufaraldursins. Borgarstjórinn í New York, Bill de Blasio, greindi nýverið frá því að stefnt sé að mikilli herferð á vegum borgaryfirvalda til þess að reyna að laða að ferðamenn að nýju.

Skotárásum hefur fjölgað mjög í New York frá því í fyrrasumar. Glæpum hefur fjölgað á sama tíma um 30%. Að minnsta kosti 463 manneskjur hafa verið skotnar í borginni það sem af er ári en þær voru 239 á þessu tímabili árið 2019 og 259 í fyrra.

mbl.is