Þjóðverjar rýmka sóttkvíarreglur

Bólusetningar breyta miklu fyrir þá sem hyggja á ferðalög.
Bólusetningar breyta miklu fyrir þá sem hyggja á ferðalög. AFP

Bólusettir Þjóðverjar, þeir sem eru með neikvætt Covid-próf og þeir sem hafa myndað mótefni þurfa ekki lengur að fara í sóttkví við komuna heim. Nýju reglurnar ná yfir lönd sem eru vinsæl meðal þýskra ferðamanna, svo sem Ítalíu, Spán og Grikkland en ekki Frakkland þar sem það er enn á lista yfir hárauð áhættusvæði. Þannig að allir þeir sem ekki eru bólusettir þurfa að fara í sóttkví við komuna frá Frakklandi.

Jens Spahn heilbrigðisráðherra segir að það sé rétt að rýmka reglurnar þar sem almennt séð sé staðan svipuð í þessum löndum og í Þýskalandi. Þetta þýði að ferðalög verða auðveldari fyrir fjölskyldufólk í sumar. Þetta getur verið lausn fyrir foreldra, sem eru kannski þegar bólusettir, og vilja ferðast með börn sín sem eru óbólusett, sagði Spahn á blaðamannafundi í Berlín í dag. 

Hingað til hafa þeir sem koma til Þýskalands frá áhættusvæðum þurft að fara í sóttkví í fimm daga og fara síðan í skimun. Fyrir óbólusetta gilda þessar reglur áfram. En fyrir bólusetta eða þá sem geta sýnt fram á jákvætt PCR-próf, sem er að minnsta kosti 28 daga gamalt þannig að ljóst sé að viðkomandi hefur jafnað sig af Covid-19, gilda aðrar reglur – þeir þurfa ekki að fara í sóttkví þó svo þeir séu að koma frá hááhættusvæðum. 

Þeir sem koma frá löndum eins og Indlandi, Brasilíu og Suður-Afríku þurfa hins vegar að fara í sóttkví og skiptir þar engu hvort viðkomandi hafi verið bólusettur eða fengið Covid. 

Þjóðverjar hafa gefið vel í varðandi bólusetningar og eru nú rúmlega 33% búin að fá bólusetningu, að minnsta kosti fyrri skammt. Eins hefur nýjum smitum fækkað mjög. 

mbl.is