Danir samþykkja umdeild lög um hælisleitendur

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. AFP

Danska þingið samþykkti í dag lög sem heimila yfirvöldum að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd til ríkja utan Evrópu á meðan þeir bíða niðurstöðu sinna mála. Yfirlýst markmið danskra stjórnvalda er að engir sæki um hæli í landinu.

Lögin hafa verið harðlega gagnrýnd af talsmönnum mannréttindasamtaka, Sameinuðu þjóðunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. 

„Afgreiðsla utanlands á hælisumsóknum vekur upp grundvallarspurningar bæði um aðgang að málsmeðferðinni og svo aðgengi að virkri vernd. Slíkt er ekki mögulegt út frá núgildandi reglum ESB eða tillögum nýja samningsins um flóttafólk og hælisvernd,“ segir Adalbert Jahnz, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB í málefnum flóttafólks.

Samþykkt með miklum meirihluta

Frumvarp ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins, sem nú er orðið að lögum, var samþykkt með 70 atkvæðum gegn 24. Þau heimila dönskum yfirvöldum að geta flutt allt ferli fyrir umsóknir um hæli til þriðja ríkis utan Evrópu. 

Danskir fjölmiðlar segja Dani hafa átt í viðræðum við Afríkuríki á borð við Túnis, Eþíópíu, Egyptaland og Rúanda. Engir samningar eru þó í höfn, en samkvæmt frumvarpinu myndi Danmörk bera kostnaðinnn þótt þriðja ríkið sjái um sjálfa framkvæmdina.

Sparar fólk hættumikla ferð

Hugmyndin gengur út á að miðstöð fyrir móttöku hælisleitenda verði komið upp í öðru landi þar sem tekið verði á móti hælisumsóknum. Flóttamenn sem sækja um hæli í Danmörku munu því ekki dvelja í Danmörku á meðan umsóknin er tekin fyrir. Fái hælisleitandi synjun yrði það þriðja ríkið sem sæi um brottvísun viðkomandi þótt Danmörk standi straum af kostnaðinum.

Jafnaðarmannaflokkurinn segir að þetta fæli í sér að flóttamenn þurfi ekki lengur að leggja í hættumiklar ferðir til Evrópu, meðal annars yfir Miðjarðarhaf. Sömuleiðis muni kerfið grafa undan starfsemi manna sem reyna að hafa fólk á flótta að féþúfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina