Saknæmt þungunarrof eða slys?

Sara Rogel er 28 ára gömul og hefur setið á bak við lás og slá í tæp níu ár en hún var tvítug dæmd í 30 ára fangelsi fyrir ólöglegt þungunarrof. 

Rogel, sem býr í El Salvador, var látin laus í gær og beið fjölskylda hennar eftir henni fyrir utan Zacatecoluca-kvennafangelsið ásamt lögfræðingi hennar, Karla Vaquerano, sem starfar með samtökunum ACDATEE sem berjast fyrir réttindum kvenna þegar kemur að þungunarrofi. 

Sara Rogel veifar hér til stuðningsmanna sinna fyrir utan Zacatecoluca-kvennafangelsið …
Sara Rogel veifar hér til stuðningsmanna sinna fyrir utan Zacatecoluca-kvennafangelsið í El Salvador. AFP

Sara Rogel var 20 ára gömul þegar hún rann og datt þegar hún var að þvo þvott. Á þessum tíma var hún í háskólanámi og komin átta mánuði á leið. Fjölskylda Söru fann hana meðvitundarlausa og var hún flutt með hraði á sjúkrahús. Þar var hún handtekin grunuð um að hafa farið í þungunarrof. 

Þungunarrof eru bönnuð og saknæm í öllum tilvikum í El Salvador, landi þar sem kaþólska kirkjan er sterk og samfélagið íhaldssamt. Refsingin fyrir slíkan glæp er frá átta ára fangelsi upp í 50 ára fangelsi. 

Fyrir dómi var hún fundin sek um morð af ásettu ráði og dæmd í 30 ára fangelsi en lögmenn hennar fengu refsinguna síðar mildaða í 10 ára fangelsi. Samkvæmt því hefði hún átt að losna úr fangelsi í október 2022. 

Þar sem um reynslulausn er að ræða má Rogel ekki yfirgefa landið og er gert að sækja sér sálfræðiaðstoð.

„Hún var svipt frelsi í næstum því níu ár. Dómur sem við teljum að sé óréttlátur,“ segir Vaquerano í samtali við AFP-fréttastofuna.

Í frétt El País kemur fram að dómari í Cojutepeque hafi fyrirskipað lausn Rogels fyrir viku á grundvelli þess að hún hefði afplánað nánast alla sína refsingu og hún væri ekki ógn við samfélagið. Gleði fjölskyldunnar var aftur á móti skamvinn því saksóknari tilkynnti að hann myndi áfrýja niðurstöðunni. „Við höfum beðið í tíu ár. Tíu ár án hennar,“ segir Ángel Rogel, þar sem hann stóð fyrir utan réttarsalinn ásamt stuðningsmönnum Söru dóttur hans, fyrir rúmri viku. 

Sara Rogel fæddist í smábænum Santa Cruz Analquito í Cuscatlán-héraði. Í október árið 2012 rann hún við þvotta og missti ófætt barn sitt. „Þetta var meðganga á lokastigum. Þetta var barn sem beðið var eftir og velkomið í heiminn,“ segir Morena Herrera, forseti samtaka sem berjast fyrir afglæpavæðingu þungunarrofs. 

„Vegna slyssins missti hún barnið sitt og mikið blóð þannig að það þurfti að flytja hana á sjúkrahús. Þar var hún sökuð um að hafa farið í þungunarrof og síðar dæmd í 30 ára fangelsi fyrir morð af yfirlögðu ráði,“ segir Herrera.

Krufning leiddi í ljós að fóstrið hafði fengið höfuðáverka sem dómarar töldu hafa verið veittir af ráðnum hug. 

Reuters-fréttastofan greinir frá því að ríkissaksóknari hafi haft viku til að áfrýja en þar sem það var ekki gert hafi Sara Rogel verið látin laus í gær. 

Sara Rogel sést hér hvítklædd ræða við ættingja fyrir utan …
Sara Rogel sést hér hvítklædd ræða við ættingja fyrir utan fangelsið í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert