Segir frænda sinn hafa verið drepinn

Til vinstri er Coning og til hægri lögreglubílar frá belgísku …
Til vinstri er Coning og til hægri lögreglubílar frá belgísku lögreglunni sem leitaði hermannsins. Samsett mynd/AFP

Meintar samsæriskenningar eru á kreiki um dauða þungvopnaða hermannsins sem hótaði að drepa helsta veirufræðing Belga nýverið. Frænka hermannsins, Jürgens Coning, segir að það sé ekki trúlegt að Coning hafi stytt sér aldur, eins og saksóknari hefur haldið fram. Frænkan segir ljóst að Coning hafi verið drepinn.

Dómsmálaráðherra Belgíu hvatti í dag fólk til þess að hunsa samsæriskenningar um dauða Conings og einbeita sér að staðreyndunum. Conings fannst í gærmorgun í Dilserbos-skógi, skammt frá landamærum Belgíu og Þýskalands. Lík Conings var nokkur hundruð metrum frá svæði þar sem hermenn höfðu leitað hans síðustu daga. Bæjarstjóri á svæðinu var í hjólaferð þegar hann rakst á lík hermannsins. 

Frænka Conings sagði fjölmiðlum í Belgíu að hún teldi að öryggissveitir hefðu drepið frænda hennar. „Hann myndi ekki fremja sjálfsvíg. Hann var drepinn,“ sagði hún. 

Belgíska lögreglan leitaði Conings aðeins nokkur hundruð metrum frá svæðinu …
Belgíska lögreglan leitaði Conings aðeins nokkur hundruð metrum frá svæðinu sem hann fannst á. AFP

Ekki hægt að leita í allri Belgíu

Dómsmálaráðherrann, Vincent van Quickenborn, sagði að það yrði rannsakað hvers vegna leit að Coning hefði ekki skilað árangri. En bætti því við að eftir því sem leitin dróst á langinn hefði það orðið sífellt líklegra að hann hefði stytt sér aldur. 

„Ég hef tekið eftir því að það eru samsæriskenningar í gangi. [Þeir sem leituðu Conings] þurftu að afmarka leitarsvæðið, það var ekki hægt að leita í allri Belgíu. Sú staðreynd að hann hafi fundist einungis nokkur hundruð metrum frá [skilgreindu leitarsvæði] sýnir að þeir voru á réttum slóðum. Ekki gleyma að [leitarsvæðið] er þétt vaxinn skógur á stærð við 24.000 fótboltavelli. Einnig þurfti að leita Conings með mikilli varúð. Þegar leitin dróst á langinn jókst trú á sjálfsvígstilgátuna, enda hvarf Coning fyrir mánuði síðan.“

Frá aðgerðum á vettvangi eftir að Coning fannst.
Frá aðgerðum á vettvangi eftir að Coning fannst. AFP

Mjög þungvopnaður

Ekkert hafði spurst til Conings, sem var sérþjálfuð skytta, síðan hann hvarf 17. maí sl. og þar til hann fannst á sunnudag. Þegar hann hvarf var hann mjög þungvopnaður en hann hafði stolið skotheldu vesti ásamt ýmsum vopnum úr herbúðunum sem hann dvaldi í áður en hann hvarf. 

Áður en hann hvarf hafði Coning ritað bréf til eiginkonu sinnar og lögreglu þar sem hann hótaði Marc Van Ranst, þekktasta veirufræðingi Belgíu og ráðgjafa stjórnvalda vegna Covid-19. 

Skotmarkið samhryggist börnum Conings

Van Ranst var sagt á sunnudag, eftir að Coning fannst, að hann gæti yfirgefið öruggt hús sem hann hafði verið fluttur í ásamt fjölskyldu sinni vegna hótunarinnar. Hann sagði í samtali við belgíska miðla að honum væri létt en að hugsanir hans væru hjá börnum hins látna. 

„Þetta er hörmulegt fyrir þau og það er ekki eitthvað sem ég gleðst yfir,“ sagði Ranst. 

Coning fannst íklæddur skotheldu vesti og bar hann skammbyssu. Hnífur og öxi fundust einnig nálægt líkinu sem og vélbyssa. Í bíl Conings voru einnig vopn en bíllinn fannst stuttu eftir hvarf hans. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert