Í felum í þrjár vikur

AFP

Einn helsti veirusérfræðingur Belga, Marc Van Ranst, hefur þurft að dvelja í skjólshúsi í tæpar þrjár vikur ásamt eiginkonu og tólf ára syni vegna hótana öfgasinnaðs hermanns, Jürgens Conings.

Jürgen Conings.
Jürgen Conings. AFP

Mikill viðbúnaður er vegna málsins í Belgíu en Conings hefur hótað blóðhefnd gagnvart veirufræðingum og sóttvarnaaðgerðum vegna Covid-19. Þótt vísindamönnum hafi verið hótað á farsóttartímum þá eru líflátshótanir í garð van Ranst þær alvarlegustu segir í frétt BBC. Conings hefur verið á flótta síðan um miðjan maí og hann er þungvopnaður.

„Hættan er raunveruleg,“ segir van Ranst í viðtali við BBC og lýsir þar nóttinni þegar hann ásamt fjölskyldu var sendur í felur 18. maí. „Hermaðurinn fyrrverandi beið þungvopnaður fyrir utan húsið heima hjá mér í þrjár klukkustundir. Beið þess að ég kæmi heim úr vinnu,“ segir van Ranst. 

AFP

Hann er vanur að koma heim úr vinnunni á þessum tíma en þennan dag kom van Ranst snemma heim og var inni á heimili sínu ásamt fjölskyldu. Líkt og van Ranst bendir á er öfgamaðurinn þrautþjálfaður og vel búinn vopnum. 

Viðtalið átti að fara fram á Zoom en hætt var við það í öryggisskyni til að ekki væri hægt að sjá hvar hann héldi til. Fjölskyldan má ekki koma nálægt gluggum skjólshússins og er undir stöðugu eftirliti.

AFP

Hann segir fjölskylduna ekki hrædda en hún fari varlega. Jafnframt beri Milo, sem er 12 ára gamall, sig vel; grínist jafnvel með að þetta sé eins og að taka vinnu að heiman alla leið. Van Ranst segir að það sem reiti hann mest til reiði sé að Milo sé sviptur frelsinu, að geta farið út úr húsi. 

Belgísk yfirvöld segja Jürgen Conings afar hættulegan og á lista yfir hryðjuverkamenn. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert