Ungt fólk í hættu á alvarlegum líffæraskemmdum

Upp komu vandamál á nýrum, lungum eða öðrum líffærum á …
Upp komu vandamál á nýrum, lungum eða öðrum líffærum á meðan rannsókninni stóð hjá fjórum af hverjum tíu hjá fólki á aldrinum 19 til 49 ára. AFP

Rannsókn hefur leitt í ljós að ungt fólk sem lagt var inn á sjúkrahús með Covid er næstum eins líklegt til að þjást af fylgikvillum og þeir sem eru eldri en 50 ára.

BBC greinir frá.

Upp komu vandamál á nýrum, lungum eða öðrum líffærum á meðan rannsókninni stóð hjá fjórum af hverjum tíu hjá fólki á aldrinum 19 til 49 ára.

Fylgst var með 73.197 einstaklingum á öllum aldri á 302 breskum sjúkrahúsum í fyrstu bylgju Covid árið 2020.

Ekki bara sjúkdómur aldraðra og veikburða

„Skilaboðin eru að þetta er ekki bara sjúkdómur aldraðra og veikburða,“ segir prófessor Calum Semple, sem stýrði rannsókninni, í samtali við BBC.

„Gögn rannsóknarinnar styrkja þá staðreynd að Covid sé ekki einungis flensa og við sjáum jafnvel ungt fólk koma inn á sjúkrahús sem þjáist verulega af fylgikvillum, sumum þurfum við að fylgjast frekar með.“

Í rannsókninni, sem gerð var af vísindamönnum við sjö háskóla í Bretlandi, var fjöldi fylgikvilla hjá þeim sem þurftu á sjúkrahúsmeðferð að halda vegna Covid-19 skilgreindur sem líffærasértæk læknisfræðileg greining.

Á heildina litið hlaut um helmingur fullorðinna sjúklinga að minnsta kosti einn fylgikvilla á meðan á sjúkrahúsvistinni stóð. Algengast var að nýrnaáverkum fylgdi lungna- og hjartaskaði.

mbl.is