Fylgjast grannt með nýju kórónuveiruafbrigði

Sýnataka í gegnum bílrúðu í Miami í Flórída.
Sýnataka í gegnum bílrúðu í Miami í Flórída. AFP

Teymi erfða- og veirufræðinga sem hafa fylgst með þróun kórónuveirunnar segja að þeir hafi komið auga á nýtt afbrigði kórónuveirunnar sem svipar til margra annarra erfiðra afbrigða, þeirra á meðal Alpha, Beta og Gamma. Sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni segir að fá tilvik nýja afbrigðisins hafi verið skráð á heimsvísu.

CNN greinir frá.

Afbrigðið sem þeir beina nú sjónum sínum að er kallað C.1.2. Það hefur skotið upp kollinum í Suður-Afríku sem og í sjö öðrum löndum í Afríku, Asíu og Eyjaálfu.

Afbrigðið ber í sér sömu stökkbreytingar og hafa gert fyrrnefnd afbrigði veirunnar skæðari. Þar á meðal eru stökkbreytingar sem gera afbrigðið meira smitandi og hjálpa því að komast fram hjá ónæmissvari líkamans. 

Fleiri stökkbreytingar þýða ekki endilega að afbrigði séu hættulegri. Sumar stökkbreytingar veikja veiruna en það er samsetning stökkbreytinga sem ræður því hvort afbrigði verði skilvirkara en forverar þess. Ein stökkbreyting getur þannig komið í veg fyrir áhrif annarrar.

Virðist ekki hafa náð miklu flugi

Teymið, sem veirufræðingurinn Penny Moore frá sóttvarnastofnun Suður-Afríku situr m.a. í, segist fylgjast grannt með C. 1. 2. Teymið rannsakar nú hvort afbrigðið eigi auðvelt með að komast hjá mótefnasvari fólks sem hefur þegar smitast af kórónuveirunni og jafnað sig, sem og fólks sem hefur verið bólusett gegn Covid-19.

„Þetta nýja afbrigði hefur greinst í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins í Suður-Afríku frá því í maí síðastliðnum. Það hefur greinst í sjö öðrum löndum í Evrópu, Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Ný afbrigði tengjast gjarnan nýjum smitbylgjum,“ segir í skýrslu teymisins.

Maria van Kerkhove, sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sagði á Twitter að um 100 tilvik C.1.2. hafi verið skráð á heimsvísu. „Sem stendur virðist C.1.2 ekki vera á miklu flugi.“

Enn er Delta-afbrigði veirunnar ráðandi í þeim smitum sem hafa greinst undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert