Flugeldasýningunni aflýst annað árið í röð

Frá flugeldasýningunni í miðbæ London rétt eftir miðnætti þann 1. …
Frá flugeldasýningunni í miðbæ London rétt eftir miðnætti þann 1. janúar 2017. AFP

Hinni árlegu áramótaflugeldasýningu í miðbæ London hefur verið aflýst annað árið í röð vegna Covid-19.

BBC greinir frá þessu.

Um 100 þúsund manns safnast iðulega saman í miðbæ London til að fylgjast með flugeldunum á miðnætti. Ekkert verður þó af því í ár en fögnuður verður þó haldinn á Trafalgar-torginu. Er nú til skoðunar hvernig bæta megi upp fyrir flugeldasýninguna með öðrum viðburðum.

„Líkt og alltaf mun London bjóða nýtt ár velkomið á stórkostlegan máta,“ segir í tilkynningu ráðhússins.

Þótt staðan á Englandi í ár sé ekki jafn alvarleg og í fyrra þegar strangt útgöngubann var í gildi hefur borgarstjórinn Sadiq Khan tekið ákvörðun um að blása viðburðinn af. „Vegna þeirrar óvissu sem fylgir Covid-19-heimsfaraldrinum verður heimsfræga áramótasýningin okkar ekki haldin við bakka Thames í ár,“ sagði borgarstjórinn.

mbl.is