Barbados kastar krúnunni

Karl Bretaprins og Dame Sandra Mason, núverandi ríkisstjóri Barbados, á …
Karl Bretaprins og Dame Sandra Mason, núverandi ríkisstjóri Barbados, á Bridgetown-flugvelli eyjaklasans. AFP

Eyríkið Barbados í karabíska hafinu mun í nótt, klukkan fjögur eftir miðnætti aðfaranótt þriðjudags að íslenskum tíma, rjúfa aldagömul tengsl við breska konungsveldið og verða nýjasta lýðveldi heimsins. Elísabet Bretadrottning verður því ekki lengur þjóðhöfðingi ríkisins.

Royal Standard-fáninn sem táknar drottninguna verður dreginn niður í höfuðborginni á miðnætti að staðartíma. Á sama tíma verður ríkisstjórinn núverandi, Dame Sandra Mason, skipuð í embætti fyrsta forseta landsins.

Dame Sandra Mason og Karl Bretaprins hlýða á þjóðsönginn.
Dame Sandra Mason og Karl Bretaprins hlýða á þjóðsönginn. AFP

Karl Bretaprins verður viðstaddur athöfnina „Pride of Nationhood“, sem á að að innihalda hergöngur, heiðursvörð, byssukveðjur, dans og flugelda.

Nýtt tímabil í sögu Barbados hefur kynt undir umræðu meðal íbúa landsins um nýlendustefnu og aldalöng áhrif Bretlands, meðal annars 200 ára þrælahald þeirra fram til ársins 1834.

Nýja bókin Brot­h­ers and Wi­ves: Insi­de the Pri­vate Li­fes of William, Kate, Harry and Meg­h­an, eft­ir Christoph­er And­er­sen, hefur sett mark sitt á heimsóknina.

Í henni er fullyrt að Karl hafi verið sá meðlim­ur kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar sem hafi velt fyr­ir sér hör­unds­lit ófædds barns þeirra Harrys og Meg­h­an. Karl hefur tekið fyrir að hann hafi spurt spurninga um hörundslit hans.

Karl Bretaprins mætir til Barbados.
Karl Bretaprins mætir til Barbados. AFP

Segja skilið við nýlendufortíð sína

Í október var Mason kosin til að verða fyrsti forseti landsins, einu ári eftir að Mia Mottley forsætisráðherra Barbados lýsti því yfir að landið myndi „fullkomlega“ segja skilið við nýlendufortíð sína.

Dame Sandra Mason og Stacia Bryan viðburðastjóri þjóðmenningarstofnunar Barbados.
Dame Sandra Mason og Stacia Bryan viðburðastjóri þjóðmenningarstofnunar Barbados. AFP

„Ég man að í gamla daga vorum við mjög spennt fyrir drottningunni og Karli prins og Díönu prinsessu og konunglegum brúðkaupum,“ sagði Anastasia Smith, 61 árs hjúkrunarfræðingur, við fréttastofu AFP.

„En ég veit ekki hvort við höfum nokkurn tíma séð þau sem konungsfjölskylduna okkar. Nú eru allir að tala um lýðveldi. Ég er ekki viss um að neitt í lífi mínu muni breytast. En ég held að við séum að gera rétt og Barbados má vera stolt.“

Barbados sem hlaut sjálfstæði frá Bretlandi árið 1966 er þekkt fyrir friðsælar strendur, ást heimamanna á krikket og fyrir að vera fæðingarstaður söngkonunnar Rihönnu, sem verður einnig viðstödd hátíðarhöldin.

Fólk leitar að nöfnum sínum við formlega opnun Golden Square …
Fólk leitar að nöfnum sínum við formlega opnun Golden Square Freedom Park í Bridgetown Barbados síðasta laugardag. AFP
mbl.is