Vægari aðgerðir í Ómíkron-bylgju

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill beita vægari aðgerðum nú en …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, vill beita vægari aðgerðum nú en áður. Þó segir hann að faraldrinum sé síður en svo lokið. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands vill að landsmenn „haldi út“ yfirstandandi bylgju smita án þess að hörðum takmörkunum verði beitt. Þetta kom fram á blaðamannafundi nú fyrir skömmu, að því er BBC greinir frá.

„Við getum haldið skólunum og fyrirtækjunum opnum og við munum finna leið til þess að lifa með veirunni,“ sagði hann. Bretland ætti möguleika á að „halda út þessa Ómíkron-bylgju án þess að loka öllu eina ferðina enn“.

Sagði Johnson að þeir sem héldu að faraldrinum væri lokið hefðu rangt fyrir sér og sagði að tímabundið myndu ákveðnir þættir breska heilbrigðisins lamast vegna fjölda Ómíkron-smita, sem þó leiddu til vægari veikinda.

Lykilstarfsfólk skikkað í dagleg próf og mælt með vinnu að heiman

200.000 smita múrinn var rofinn í Bretlandi í dag og munu vægari takmarkanir en áður hafa sést taka gildi fram til 28. janúar vegna þessa. Starfsfólk í matvælaiðnaði, þeir sem starfa í samgöngum og á landamærum, munu þurfa að taka hraðpróf daglega frá 10. janúar, en samtals eru þetta um 100.000 manns.

Þá er mælst til þess að fólk vinni að heiman, noti andlitsgrímu á almannafæri og Covid-passa á tilgreindum stöðum. 

Þó minntist Johnson á að staðan í Bretlandi væri frábrugðin því sem áður var þar sem Ómíkron sé mildara afbrigði en önnur auk þess sem hafist hefur verið handa við að gefa örvunarskammta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert