Justin Trudeau æfur yfir flugferð áhrifavalda

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Þrjú ráðuneyti í Kanada, þau sem fara með málefni samgöngu-, heilbrigðis- og almannaöryggismála, hafa blásið til sameiginlegrar rannsóknar á atviki í leiguflugi Sunwing Airlines frá Montreal til Cancún í Mexíkó 30. desember, þar sem hópur kanadískra áhrifavalda og raunveruleikasjónvarpsstjarna þótti brjóta svo gróflega gegn flestum núgildandi sóttvarnareglum Vesturlanda, að fólkið er nú strandaglópar í Mexíkó, þar sem öll flugfélög þverneita að hleypa því um borð í nokkurt flugfar.

Þrjátíu greinst með Covid

Fjandinn varð laus þegar myndskeið af hópnum um borð í flugvélinni dúkkuðu upp á samfélagsmiðlum, þar sem fólkið sást dansa grímulaust í sætum og á göngum flugvélarinnar á meðan stóreflis vodkaflaska gekk manna á milli.

Ætlunin var að dvelja um vikutíma í Cancún á vegum 111 Private Club, sem James nokkur William Awad starfrækir. Babb kom hins vegar í bátinn þegar Sunwing felldi heimflugið niður og hafa strandaglóparnir, sem fyrr segir, farið bónleiðir til búðar annarra flugfélaga, sem vilja ekki sjá þá um borð.

Er síðast fréttist höfðu um 30 ferðalanganna greinst með Covid-19 og sátu í einangrun í smábænum Tulum, suður af Cancún, en 19 ára stúlka úr hópnum, Rebecca St-Pierre, sem játaði allt í viðtali við kanadíska fjölmiðla, þar á meðal að myndskeiðin úr fluginu gæfu rétta mynd af því, sem þar fór fram, sagði að samferðafólk hennar hefði fyllt nasir sínar af vaselíni, þegar heimflugið var enn á dagskrá, með það fyrir augum að sleppa gegnum veirupróf við komuna til Kanada.

„Einföld teiti“ úr böndunum

„Skipuleggjandinn lét sig bara hverfa, ég veit ekkert hverjir eru enn hérna og öllu flugi hefur verið aflýst,“ hefur breska blaðið The Guardian eftir skelfingu lostinni St-Pierre, sem vann ferðina í leik á Instagram og hafði aldrei heyrt um téðan Awad áður. Frá honum bárust hins vegar skilaboð á Twitter um að þarna hefði „einföld teiti“ farið úr böndunum og hann hygðist endurskoða vinnubrögð sín fyrir næstu för.

Háttsemi áhrifavaldanna hafði þau áhrif, að kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau er æfur af bræði og kallaði fólkið „fábjána“ og „villimenn“ í fyrradag, samkvæmt þýðingu Guardian-manna úr frönsku, auk þess að halda því fram, að hegðunin væri „löðrungur í andlitið“ gagnvart fólki, sem fylgdi sóttvarnareglum yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert