Fimm ára stúlka lést í skíðaslysi

Banaslys varð í Ölpunum í gær.
Banaslys varð í Ölpunum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm ára gömul bresk stúlka lést í skíðaslysi í Ölpunum eftir að maður klessti á hana á miklum hraða. The Telegraph greinir frá.

Slysið átti sér stað snemma í gærmorgun á Flaine skíðasvæðinu í Sviss en það er í um 80 kílómetra fjarlægð frá Genf. Aðstæður á svæðinu voru góðar.

Stúlkan, sem var í fríi með fjölskyldu sinni, var á auðveldri skíðabraut ásamt hópi fólks í fylgd skíðakennara frá Ecole du Ski Français, þegar slysið átti sér stað.

Rannsakað hvort um manndráp af gáleysi sé að ræða

Fertugur karlmaður hefur verið handtekinn vegna slyssins og verður rannsakað hvort um manndráp af gáleysi sé að ræða, að því er segir í blaðinu Le DauphinéGert er ráð fyrir að rannsóknin muni beinast að hraða skíðamannsins og hugsanlegu broti hans á öryggis- og varúðarskyldu.

„Barnið var í einfaldri röð fyrir aftan hópinn og ætlaði að beygja til hægri þegar skíðamaðurinn sem kom á miklum hraða klessti á hana en hann reyndi án árangurs að forðast hana,“ sagði saksóknarinn sem hefur yfirumsjón með rannsókninni.

Að sögn læknis á svæðinu báru tilraunir til að endurlífga stúlkuna ekki árangur. Hún lést þegar hún var flutt á sjúkrahús með þyrlu.

Leita að sálfræðingi fyrir fjölskylduna

Jean-Paul Constant, borgarstjóri Arâches-héraðs, þar sem atvikið átti sér stað, sagði að fjölskyldan væri farin heim og að starfsfólk skíðaskólans og skíðalyftunnar fengi stuðning frá sálfræðingi.

Hann bætti við: „Við erum að leita að enskumælandi sálfræðingi til að hitta fjölskylduna sem hefur snúið aftur til Genfar.“

Opinber rannsókn mun í fyrsta lagi hefjast á morgun. Krufning verður einnig framkvæmd á morgun til að komast að dánarorsök.

mbl.is