Ísinn brotinn á fundinum í Ósló

Sendinefnd talíbana er nú stödd í Ósló í Noregi til …
Sendinefnd talíbana er nú stödd í Ósló í Noregi til að funda með fulltrúum vestrænna ríkja og blaðamönnum. AFP

Feminíski aðgerðasinninn Jamila Afghani segir fund talíbana, Afgana og vestrænna erindreka sem fór fram í Ósló í Noregi í gær hafa verið jákvæðan. Mannréttindi, staða kvenna og stríðið í Afganistan voru til umræðu en sendinefnd talíbana ræddi meðal annars við konur sem hafa barist fyrir réttindum kvenna í landinu og blaðamenn. 

Jamila Afghani sagði áform talíbana lofa góðu. „En við þurfum að sjá hverjar aðgerðir þeirra verða, miðað við orð þeirra,“ bætti hún við.

Þetta er í fyrsta skipti sem sendinefnd talíbana kemur til Evrópu síðan talíbanar tóku völd í Afganistan. Gert er ráð fyrir að fundað verði í dag og á morgun en það er utanríkisráðherra talíbana, Amir Khan Muttaqi sem fer fyrir sendinefndinni. 

Talsmaður talíbana, Zabihullah Mujahid skrifaði á Twitter í gær að allir Afganir þurfi að vinna saman að betri framtíð í Afganistan. 

Fundirnir fóru ekki fram fyrir opnum dyrum en viðræðurnar fara fram á Soria Moria hótelinu rétt fyrir utan Ósló. 

Ekk­ert ríki hef­ur viður­kennt stjórn talíbana en þeir voru síðast við völd í land­inu frá ár­inu 1996 og til 2001 þegar Banda­rík­in gerðu inn­rás. Í kjöl­far brott­hvarfs Banda­ríkja­hers í fyrra tóku talíban­ar aft­ur völd­in í land­inu í ág­úst 2021.

Aðstæður fólks í Af­gan­ist­an hafa snar­versnað síðan talíban­ar tóku við og áætlað er að 23 millj­ón­ir búi við hung­ur. Það eru um 55% af heild­ar­fjölda íbúa. Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa sagst þurfa 4,4 millj­arða Banda­ríkja­dala til þess að koma til móts við þessa stöðu.

Banda­ríska rík­is­stjórn­in hef­ur fryst stór­ar sjóði í eigu seðlabanka Af­gan­ist­an og mannúðaraðstoð í formi fé­greiðslna var snar­lega hætt eft­ir að talíban­arn­ir tóku völd. 

Afþakkaði boð um að taka þátt

Fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Afganistan, sem var steypt af stóli í ágúst á síðasta ári, Nargis Nehan, er nú búsett í Noregi. Hún afþakkaði boð um að taka þátt í viðræðunum en hún var orkumálaráðherra. 

Nehan sagði að hún hefði áhyggjur af því að viðræðurnar gerðu það að verkum að viðvera talíbana í landinu yrði samþykkt af öðrum ríkjum heims. 

Tvær konur sem barist hafa fyrir réttindum kvenna hafa horfið þessa vikuna. Voru þær teknar af heimilum sínum í Kabúl eftir að hafa tekið þátt í mótmælum.

Mótmælt fyrir utan 

Á annan tug manna kom saman fyrir utan utanríkisráðuneyti Noregs í gær og mótmæltu viðræðunum. Einn mótmælandanna, Shala Sultani, sagði fjölmiðlum að viðræðurnar væru blaut tuska í andlitið fyrir Afgani sem misst hafa fjölskyldu og ástvini eftir að talíbanar tóku við. „Þú talar ekki við hryðjuverkamenn,“ sagði Sultani. 

Í dag munu talíbanar ræða við erindreka Bandaríkjanna, Frakklands, Bretlands, Þýskalands, Ítalíu og Evrópusambandsins. Á morgun munu þeir ræða við norsk stjórnvöld.  

Mótmælt var fyrir utan utanríkisráðuneyti Noregs í gær.
Mótmælt var fyrir utan utanríkisráðuneyti Noregs í gær. AFP
mbl.is