Réðst á þrjá heilbrigðisstarfsmenn og myrti einn

Japanska lögreglan að störfum. Myndin er úr safni.
Japanska lögreglan að störfum. Myndin er úr safni. AFP

Japanska lögreglan hefur handtekið karlmann eftir ellefu klukkustunda umsátur. Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á þrjá heilbrigðisstarfsmenn og skotið einn af þeim til bana í gær. Atvikið átti sér stað á heimili mannsins í borginni Fujimono sem er staðsett skammt frá höfuðborginni Tókíó.

Byssumaðurinn heitir Hiroshi Watanabe og er á sjötugsaldri. Watanabe stendur nú frammi fyrir morðákæru.

Maðurinn sem Watanabe er grunaður um að hafa skotið var læknir á fimmtugsaldri. Hann hét Junichi Suzuki og lést hann á spítala. 

Skotglæpir af þessum skala eru sjaldgæfir í Japan en strangar reglur gilda þar um skotvopnaeign. Það er óvitað hver var kveikjan að ofbeldinu og hvernig Watanabe komst yfir skotvopn. Sumir fréttamiðlar segja að um veiðibyssu hafi verið að ræða. 

Móðir Watanabes nýlátin

Japanskir fjölmiðlar segja frá því að heilbrigðisstarfsmennirnir hafi verið umönnunaraðilar móður Watanabe. Hún hafði dáið skömmu áður en hann framdi voðaverkin. Heilbrigðisstarfsmennirnir komu á heimili Watanabe til þess að votta honum samúð sína. 

Lögreglu barst tilkynning um byssuskot á heimili hans klukkan níu í gærkvöldi að staðartíma. Þá fannst karlmaður í blóði sínu fyrir utan heimili Watanabe. Um var að ræða karlmann um fertugt sem starfar sem hjúkrunarfræðingur. Hann hafði verið skotinn í bringu og maga. Maðurinn var fluttur á spítala. Þar liggur hann enn þungt haldinn.

Annar karlmaður hafði þá náð að flýja vettvang glæpsins og leita til lögreglu. 

Lögreglan talaði við Watanabe, sem var með Suzuki í gíslingu, í gegnum síma alla nóttina en hann setti ekki fram neinar kröfur. Í morgun rýmdi lögregla svo fjölmörg heimili í grennd við vettvang glæpsins og réðst inn á heimili Watanabe. Þar fannst hann ásamt Suzuki.

mbl.is