Navalní hvetur Rússa til að mótmæla á hverjum degi

Lögregluþjónar handtaka mótmælanda á Rauða torginu í Moskvu.
Lögregluþjónar handtaka mótmælanda á Rauða torginu í Moskvu. AFP

Rúmlega hundrað manns voru handteknir í St. Pétursborg og Moskvu vegna mótmæla gegn stríðinu í Úkraínu í gærkvöldi eftir að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní hvatti Rússa til þess að mótmæla Úkraínustríðinu á hverjum einasta degi. Sagði Navalní að þjóðin ætti ekki að vera „þjóð hræddra hugleysingja“ og kallaði hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta „brjálaðan lítinn keisara“.

„Ég hvet alla til að halda út á göturnar og berjast fyrir friði,“ sagði Navalní í yfirlýsingu sinni, sem birt var á Facebook. Sagði hann að Rússar ættu ekki að vera hræddir við að fara í fangelsi. „Ef við þurfum að fylla fangelsin og lögreglubílana til að koma í veg fyrir stríð, munum við fylla upp fangelsin og lögreglubílana,“ sagði Navalní.

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Sagði Navalní að fólk ætti að mótmæla klukkan 19 á virkum dögum og kl. 14 um helgar. Þúsundir Rússa hafa mótmælt stríðinu frá því að það hófst fyrir viku, en OVD-Info, óháður eftirlitsaðili, áætlar að rúmlega 7.000 manns hafi verið handteknir í Rússlandi fyrir að mótmæla.

Lögreglan í Sankti Pétursborg leysti upp mótmælin þar með mikilli hörku, og handtók hún um 100 mótmælendur. Þá lokaði lögreglan í Moskvu Rauða torginu og handtók að minnsta kosti sjö manns.

Frá mótmælum við Rauðatorgið í gær.
Frá mótmælum við Rauðatorgið í gær. AFP

Bjóða mæðrum að sækja synina

Af þeim fjarskiptum rússneskra hermanna, sem náðst hefur að hlera, má ráða að mörgum þeirra hafi ekki verið sagt að þeir ættu að ráðast inn í Úkraínu. Þá hafa birst á samfélagsmiðlum upptökur af hermönnum sem hafa lagt niður vopn, og hafa þeir í mörgum tilfellum verið ungir og óreyndir hermenn, sem töldu sig hafa átt að taka þátt í heræfingum.

Varnarmálaráðuneyti Úkraínu bauð í gær rússneskum mæðrum að sækja þá syni sína sem hefðu gefist upp, svo fremi að þær kæmu sjálfar til Kænugarðs að sækja þá. Áður hafði ráðuneytið sett upp sérstakan upplýsingasíma, þar sem rússneskir foreldrar gætu hringt og kannað hvort synir þeirra væru meðal þeirra sem hefðu fallið eða verið teknir höndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert