Sá og heyrði sprenginguna

Jaróslav á fundi meðal sjálfboðasamtakanna sem hann vinnur með um …
Jaróslav á fundi meðal sjálfboðasamtakanna sem hann vinnur með um daginn.

Sprengingar heyrast daglega í bæði Ódessu og Karkív þar sem Rússar halda áfram að skjóta sprengjum á borgirnar. Í gær var útgöngubann í Ódessu en Jaróslav var hins vegar beðinn að fara í sérstakt verkefni. Á leiðinni heim varð hann vitni að sprengingu, en síðar kom í ljós að þar hafði 15 ára drengur látið lífið.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei í Lvív í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­íne í borg­inni Karkív í aust­ur­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is upp­lif­un­um sín­um og greina frá því hvað efst er í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð braust út í landi þeirra.

Mánudagur 2. maí:

Jaróslav í Ódessu

Annar maí er mjög erfiður dagur fyrir borgina okkar. Á þessum degi árið 2014 urðu átök á milli þeirra sem studdu Rússa og þeirra sem studdu Úkraínu. Viku síðar, 9. maí er svo minningardagur um þær fórnir sem færðar voru í stríðinu. Núna er samt ekkert um neina viðburði heldur var ákveðið að hafa útgöngubann báða þessa daga.

Dagurinn átti að vera rólegur, kyrrlátur og notaður í að safna kröfum á ný, en hann hófst á óvæntu símtali frá félaga mínum í hernum. Ég tók strax það allra nauðsynlegasta og lagði af stað út úr borginni. Ég hef ekki séð borgina svona tóma, sérstaklega þegar veðrið er jafn gott og var í dag. Venjulega er fullt af fólki við ströndina og hundruð „hipstera“ sem aka um á hverju því sem er með hjól. Í dag leit borgin hins vegar út fyrir að vera eins og sena í heimsendamynd.  

Ég hafði fengið uppgefið lykilorð sem ég gat notað á fjölda eftirlitsstöðva sem ég þurfi að fara í gegnum, en ég þurfti að fara í tvær 80 km ferðir. Í lok seinni ferðarinnar sá ég og heyrði sprengingu nærri flugvellinum. Því miður lenti hún á húsi þar sem fólk bjó. Einn drengur, 15 ára, lést. Hann var að læra fyrir próf.

Daginn áður heyrði ég þrjár öflugar sprengingar í borginni, rétt eftir að loftvarnaflauturnar fóru í gang. Það hefur verið lítið um eldsneyti í borginni undanfarið, en samkvæmt skilaboðum frá hinu opinbera á það að lagast í næstu viku. Hins vegar gæti eldsneytisverðið hækkað eitthvað. Þetta er því ágætur tími til að minna mann á að nota hjólið meira.

Annars er gróðurinn allur að springa út. Það er orðið stuttermaveður og við sáum um daginn lögregluna sekta ökumann. Hlutir eru því að einhverju leyti svipaðir og í fyrra lífinu. Það hafa verið árásir undanfarna daga og við heyrum oft í stóraskotaliðsbyssum.

Í gær hjálpuðum við líka hópi sjálfboðaliða að afferma um 20 tonn af hjálpargögnum sem komu frá Þýskalandi. Hópurinn er að verða sterkari og sterkari, ekki ólíkt sveppum eftir rigningu.

Sergei í Lvív

Sextugasti og áttundi dagur stríðsins. Dagurinn hófst með fjölda símtala í tengslum við vinnuna, en ég vann að heiman. Það hefur verið mikið að gera þar undanfarna daga. Strax frá því í morgun var ég því upptekinn við allskonar vinnu tengda pöntunum. Seinni partinn þegar ástandið róaðist aðeins og ég ákvað að rétt væri að þrífa aðeins hér heima, bæði svalirnar og inn í einum skápnum.

Í kvöld hitti ég svo vin sem lánaði mér nokkrar áhugaverðar bækur til að lesa. Við sátum á hverfiskránni í góðan tíma og svo fór ég heim seint um kvöldið. Í fyrradag fékk ég þær fréttir að frændi minn væri látinn og mamma hringdi í kvöld og lét mig vita að jarðaförin yrði á morgun. Ég ætla því að reyna að ná góðum svefni í nótt.

Staðan á víglínunni er áfram erfið, en úkraínski herinn virðist hafa stjórn á hlutum. Aftur skutu þeir eldflaugum á Ódessu og drápu nú 15 ára strák. Maður heyrir víða erlendis frá að fólk telji að Rússar muni ekki vinna stríðið og ég er 100% sammála. Hægt en örugglega munum við styrkja stöðu okkar og að endingu sigra. Ekki spurning.

Karíne í Karkív

Stóraskotaliðsárásir halda áfram á Karkív, en þær hafa þó aðeins dregist saman undanfarið. Ég og eiginmaður minn fórum í dag í Pavlovo Pole hverfið hér í borginni, en þar komum við meðal annars við í stórmarkaðinum og keyptum bæði hunda- og páfagaukamat auk annars fyrir heimilið. Við hittum einnig vinkonu mína hana Natalíu og gáfum henni páskaköku og páskagjöf.

Nóttina áður höfðu rússneskar eldflaugar sprungið í hverfinu, meðal annars á svæði þar sem þrír skólar eru, dans-, lista- og ballettskólar. Natalía sagði mér frá þessu, en við vitum ekki hvaða hús skemmdust. Þetta er hverfi sem ég tengi við barnæsku mína, en ég var í listaskóla þar.

Grænn „borsch“ úr smiðju Karíne.
Grænn „borsch“ úr smiðju Karíne.

Almenningssamgöngur virka illa eða ekki í borginni eins og stendur og ef fólk vill fara milli hverfa þarf oftast að nota bíla.

Í dag færði ég vini mínum armenskan rétt sem kallast „dolma.“ Þetta eru hrísgrjón og hakk með kryddblöndu og vafið í vínviðarblöð. Ég eldaði þennan rétt sjálf frá grunni, en ég á frosin vínviðarlauf, sem ég tíndi í garðinum okkar í fyrrasumar, í frystinum.

Á stríðstímum þjást allir andlega. Eldamennskan virkar sefandi á mig. Matur minnir mig á jákvæða og góða hluti í daglegu lífi. Þá róar eldamennskan mig einnig. Fyrir nokkrum dögum eldaði ég m.a. grænan „borsch“ rétt, en uppskriftina fékk ég frá afa mínum honum Eugene, en hann kom frá Poltava-héraðinu. Einu sinni fór ég ásamt vini mínum til þorps í því héraði á borsch-hátíð. Þar smökkuðum við yfir 25 borsch-rétti sem komu frá öllum hornum Úkraínu. Einn þeirra var eins og þessi réttur sem ég geri. Ég geri oft eggjahræru fyrir eiginmann minn og steiki kartöflur.

Karíne heldur áfram að sýna okkur frá úkraínskri matargerð. Hér …
Karíne heldur áfram að sýna okkur frá úkraínskri matargerð. Hér erum við með dolma.
Inn í dola er blanda af hakki og hrísgrjónum, auk …
Inn í dola er blanda af hakki og hrísgrjónum, auk kryddblöndu og er það svo vafið í vínviðarlauf.

Í dag heyrði ég einnig í nágranna mínum henni Rukijat sem er múslimi. Ég heyrði í honum í gegnum Viber, en hann flúði borgina þegar stríðið hófst. Við ræddum meðal annars saman um páskana og hún sendi mér sérstaka kveðju vegna hátíðarinnar. Hún er mjög áhyggjufull út af stríðinu, en vill umfram allt koma aftur heim til sín hingað í Karkív.

Í gær heyrði ég á samfélagsmiðlum að torg í Reykjavík hefði verið nefnt eftir Kænugarði og að það sé í næsta nágrenni við sendiráð Rússlands. Þetta eru mjög góðar fréttir. Síðustu daga höfum við reglulega heyrt í sprengjum og aðfaranótt sunnudags voru sprengingar í Saltíjka þar sem sprengjur lentu meðal annars á apóteki og íbúðahúsi, auk þess sem spítali skemmdist.

Vinkona Karíne, hún Svitlana, ákvað að flýja borgina, en hún …
Vinkona Karíne, hún Svitlana, ákvað að flýja borgina, en hún skildi eftir sig allskonar leir- og keramikmuni sem hún hefur gert og selur.

Um daginn flúði einnig vinkona mín hún Svitlana til Mírhorod. Hún starfaði við leir- og keramikgerð, en mikil hefð er fyrir slíku hér í Úkraínu. Hún þurfti að skilja mest allt dótið sitt eftir.

mbl.is