Finnar þurfi að sækja um aðild að NATO án tafar

Sauli Niinistö forseti Finnlands á blaðamannafundi vegna gagnkvæms öryggissamnings við …
Sauli Niinistö forseti Finnlands á blaðamannafundi vegna gagnkvæms öryggissamnings við Breta í gær. AFP

Sauli Niinistö forseti Finnlands og forsætisráðherra landsins Sanna Marin sögðust í dag jákvæð fyrir inngöngu ríkisins í Atlantshafsbandalagið (NATO).

„Aðild að Atlantshafsbandalaginu myndi styrkja öryggi Finnlands. Sem aðildarríki myndi Finnland styrkja varnarbandalagið í heild sinni. Finnland þarf að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu án tafar,“ sögðu Niinstö og Marin í sameiginlegri yfirlýsingu nú í morgun. 

Þau bættu því við að opinber tilkynning um málið yrði send út á sunnudag.

Þá má gera ráð fyrir því að Svíar fylgi í fótspor nágranna sinna bráðlega.

Sanna Marin ásamt Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á fundi í …
Sanna Marin ásamt Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á fundi í fyrra. AFP

Þjóðir Atlantshafsbandalagsins búast við því að Finnar og Svíar fái skjóta inngöngu í bandalagið, að sögn fimm diplómata og embættismanna sem ræddu við Reuters. Mun það greiða leið fyrir aukinni herviðveru á Norðurlöndum. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú þegar lofað Svíum og Finnum að verja þá gegn þeirri hugsanlegu ógn sem gæti steðjað að löndunum vegna andstöðu rússneskra yfirvalda við inngöngu þjóðanna í Atlantshafsbandalagið. 

Johnson og Niinisto takast í hendur.
Johnson og Niinisto takast í hendur. AFP

Pútín hefur hótað „alvarlegum“ afleiðingum

Mun innganga landanna að öllum líkindum reita rússnesk stjórnvöld til reiði en Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að stækkun bandalagsins sé bein ógn við rússneskt öryggi.

Hefur Pútín sagt meinta öryggisógn Atlantshafsbandalagsins ástæðu fyrir rússnesku innrásinni í Úkraínu. Hefur hann sömuleiðis hótað Finnlandi og Svíþjóð „alvarlegum hernaðarlegum og pólitískum afleiðingum“ gangi þjóðirnar í Atlantshafsbandalagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert