Erdogan „mun ekki segja já“

Recep Tayyib Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyib Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lýsti því yfir nú fyrir stundu að hann myndi ekki samþykkja umsóknir Svíþjóðar og Finnlands í Atlantshafsbandalagið. 

Sænska utanríkisráðuneytið sagði fyrr í dag að háttsettir erindrekar frá Svíþjóð og Finnlandi myndi ferðast til Tyrklands á næstunni til að ræða andstöðu Tyrkja við umsókn þeirra að bandalaginu. 

Erdogan sagði hins vegar á blaðamannafundi í Ankara vegna opinberrar heimsóknar Abdelmadjid Tebboune, forseta Alsírs, að diplómatar ríkjanna ættu ekki „að ómaka sig“ við að koma til Tyrklands til þess að reyna að fá Tyrki til að skipta um skoðun. 

„Í fyrsta lagi munum við ekki segja „já“ við þá sem beita Tyrklandi refsiaðgerðum, um að ganga í NATO, öryggisstofnum, í þessu ferli,“ sagði Erdogan. 

Erdogan lýsti yfir efasemdum sínum við umsóknir ríkjanna í síðustu viku, en hann segir ríkin tvö hafa stutt við „hryðjuverkastarfsemi“ með því að leyfa Kúrdum að sinna stjórnmálastarfi í löndum sínum. 

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í gær að ríki sem „styddu hryðjuverkastarfsemi“ ættu ekki að vera aðilar í bandalaginu og að Tyrkir krefðust þess að ríkin tvö létu af stuðningi sínum við Kúrda. 

 

mbl.is