Rússneskur hermaður játaði stríðsglæp

Rússnesk stjórnvöld segja hermenn sína ekki hafa beint spjótum sínum …
Rússnesk stjórnvöld segja hermenn sína ekki hafa beint spjótum sínum að almennum borgurum. Játning hermannsins bendir til annars. AFP

Rússneskur hermaður sem nú stendur frammi fyrir ákæru vegna herglæpa í Úkraínu hefur játað að hafa drepið óvopnaðan almennan borgara. Hermaðurinn heitir Vadim Shishimarin og er ekki nema 21 árs gamall. Honum er gefið að sök að hafa drepið 62 ára gamlan mann á fyrstu dögum stríðsins í Úkraínu. Fyrir verknaðinn gæti hann hlotið lífstíðardóm. 

Saksóknarar segja að koma muni til fleiri réttarhalda eftir að þeir hafi komist á snoðir um aðra mögulega stríðsglæpi af hálfu rússneskra hermanna. 

Stjórnvöld í Rússlandi hafa alltaf tekið fyrir það að hermenn þeirra hafi beint spjótum sínum að óbreyttum borgurum. 

Sat nokkra metra frá ekkjunni

Maðurinn er sagður hafa verið á hjóli nærri þorpinu Tjúpakívka í austurhluta Úkraínu þegar rússneski hermaðurinn varð manninum að bana. Á atvikið að hafa átt sér stað 28. febrúar síðastliðinn, fjórum dögum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Shishimarin er mjög unglegur og virtist stressaður þegar hann var leiddur inn í réttarsalinn í dag af þungvopnuðum vörðum. Nokkra metra frá honum sat ekkja mannsins sem Shishimarin hefur nú játað að hafa drepið.  

„Samþykkir þú að þú sért sekur?“ spurði dómarinn hermanninn. 

„Já,“ svaraði hann. 

„Fullkomlega?“

„Já.“

mbl.is