Field's lokar í að minnsta kosti viku

Fyrir utan verslunarmiðstöðina í dag.
Fyrir utan verslunarmiðstöðina í dag. AFP

Verslunarmiðstöðinni Field's hefur verið lokað og verður hún lokuð að minnsta kosti til mánudagsins 11. júlí eftir skotárás sem varð í verslunarmiðstöðinni í gær þar sem þrír létu lífið.

Þetta kemur fram á vefsíðu verslunarmiðstöðvarinnar.

„Hugur okkar er hjá fórnarlömbum þessa hörmulega viðburðar og fjölskyldumeðlimum þeirra sem og hjá starfsmönnum  Field's og þeim fjölmörgu viðskiptavinum sem mættu í Field's í dag.“ 

Þá segir í færslu Field's á Facebook að verslunarmiðstöðin muni ekki opna aftur fyrr en lögreglan hefur gefið grænt ljós.

Kemur einnig fram á vefsíðunni að bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar hafi verið opnuð og fólk geti komist aftur í bílana sína. Þá eru þeir sem þurfa að komast í bílana beðnir um að skoða leiðbeiningar á Twitter-síðu lögreglunnar í Kaupmannahöfn.

mbl.is