Skipar Rússum að berjast áfram

Frá fundi Putín og Shoigu í Moskvu.
Frá fundi Putín og Shoigu í Moskvu. AFP

Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefur skipað rússneskum hermönnum að fara í enn frekari sókn í Donbas-héraðinu í austurhluta Úkraínu eftir að Rússar náðu stjórn á borginni Lísítsjansk.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur óskað efir fleiri vopnum frá Vesturlöndum í kjölfar ósigursins í Lísítsjansk svo Úkraínumenn geti haldið upp andspyrnu og endurheimt glatað landsvæði.

Eftir að hafa gefist upp á upphaflegu stríðsmarkmiði sínu um að ná stjórn á Kænugarði hafa Rússar einbeitt sér að því að tryggja yfirráð yfir héröðunum, Dónetsk og Lúgansk, sem mynda Donbas-svæðið.

Full stjórn á Lúgansk

Rússneski varnarmálaráðherrann, Sergei Shoigu, sagði Pútín á fundi að rússneskar hersveitir hefðu nú fulla stjórn á Lúgansk-héraðinu.

Til marks um að ekkert lát yrði á átökunum og að Rússar hefðu nú augastað á Dónetsk sagði Pútín við Shoigu að hermenn sem staðsettir eru á svæðinu yrðu að halda áfram aðgerðum sínum.

Úkraínskir hermenn í Lúgansk-héraðinu.
Úkraínskir hermenn í Lúgansk-héraðinu. AFP

„Hersveitir, þar á meðal austurhópurinn og vesturhópinn verða að sinna verkefnum sínum samkvæmt áður samþykktum áætlunum,” sagði Pútin.

„Ég vona að allt haldi áfram í þá átt sem það hefur farið í Lúgansk hingað til,” bætti hann við.

Úkraínski herinn sagði í gær að hann væri að hörfa frá Lítisjansk til að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll innan hersveitarinnar. Vika er síðan að Úkraínumenn hörfuðu frá borginni Severódónetsk.

mbl.is