Með slæma áverka eftir árás hvítabjarnar

Um þúsund hvítabirnir eru á Svalbarða.
Um þúsund hvítabirnir eru á Svalbarða. AFP

Frönsk kona hlaut slæma áverka á handlegg þegar hvítabjörn kom inn í tjaldbúðir hennar á eyjaklasanum Svalbarða í dag.

Að sögn yfirvalda er hún þó ekki í lífshættu.

Var í útilegu með 25 manna hópi

Konan er á fertugsaldri og var með 25 manna hópi í útilegu. Hún var flutt með þyrlu á sjúkrahús í bænum Longyearbyen en er þó sögð hafa sloppið vel.

Hvítabjörninn var skotinn á vettvangi árásarinnar en flúði þaðan. Nokkru seinna fannst björninn og var aflífaður vegna þeirra meiðsla sem hann hafði hlotið.

Á Svalbarða ber öllum skylda til að bera riffil utan þéttbýlis vegna þeirrar hættu sem stafar af hvítabjörnum. Þess má geta að karldýr geta vegið á milli 300 og 600 kíló, en kvendýr eru um það bil helmingi minni. 

300 hvítabirnir á Svalbarða allt árið

Samkvæmt talningu árið 2015 eru um þúsund hvítabirnir á Svalbarða og búa um 300 þeirra á eyjaklasanum allt árið um kring.

Sex manns hafa látið lífið í árásum hvítabjarna á Svalbarða síðan árið 1971, síðast árið 2020 þegar 38 ára Hollendingur lét lífið. 

Að sögn sérfræðinga kemur minnkandi hafís af völdum hlýnunar jarðar í v eg fyrir aðgengi hvítabjarna að einni helstu fæðu þeirra, selum, og neyðir þá til að nálgast byggð svæði í leit að mat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert