Snjór þyngir Svíum

Ástandið var ískyggilegt víða á sænskum vegum í nótt og …
Ástandið var ískyggilegt víða á sænskum vegum í nótt og morgun og komst fjöldi Svía ekki leiðar sinnar vegna veðurs. Skjáskot/Sjónvarpsfréttir SVT

Í Suður-Svíþjóð eru íbúar nú með böggum hildar yfir fannfergi í gær og í nótt er lamað hefur almenningssamgöngur þar að miklu leyti. Er ástandið einna verst, að sögn ríkisútvarpsins SVT, í höfuðborginni Stokkhólmi og Gautlandi, Kalmar og Skáni.

Veðurstofan hefur af þessu tilefni sent út gula, og sums staðar rauðgula, viðvörun og hafa skólar brugðist við með því að bjóða nemendum upp á fjarkennslu, svo sem í skólum í Trollhättan og Vänersborg. „Við erum engu að síður með starfsfólk alls staðar ef svo færi að einhverjir nemendur mættu,“ segir Lena Hansson, deildarstjóri við skóla þar, við SVT.

Lestakerfi Stokkhólms var að miklu leyti í lamasessi í morgun auk þess sem sjúkraflutningar voru í uppnámi og boðað til neyðarfundar á þeim vettvangi til að bregðast við ástandinu. Í Kalmar fór rafmagn af heimilum nokkur hundruð íbúa og var verið að bjarga málum þar er síðast fréttist.

Þá komst fjöldi Svía ekki til vinnu í morgun vegna samgönguvandræða og flugfarþegar komust ekki frá Stokkhólmi á Arlanda-flugvöllinn utan við borgina.

SVT

Aftonbladet

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka