Hinar látnu voru systur

Mille Andrea og Mina Alexandra Hjalmarsen voru aðeins 16 ára …
Mille Andrea og Mina Alexandra Hjalmarsen voru aðeins 16 ára gamlar þegar þær fundust látnar í íbúð í Spydeberg aðfaranótt sunnudags en þá hafði þeirra verið saknað um skamma hríð á stofnun sem þær voru vistaðar á. Ljósmynd/Úr einkasafni

Maður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur fyrir Héraðsdómi Follo og Nordre Østfold í Noregi, grunaður um manndráp af gáleysi í kjölfar þess er systurnar Mille Andrea og Mina Alexandra Hjalmarsen, báðar 16 ára, fundust látnar í íbúð í Spydeberg þar í fylkinu, Østfold, aðfaranótt sunnudags.

Maðurinn var í fyrstu grunaður um að hafa látið hjá líða að koma stúlkunum til hjálpar þar sem þær voru ósjálfbjarga en lögregla breytti þeim grunsemdum sínum í manndráp af gáleysi áður en maðurinn var leiddur fyrir dómara í dag.

Systranna var saknað á stofnun þar sem þær höfðu verið vistaðar og fundust svo látnar í íbúðinni, líklega af völdum ofskömmtunar fíkniefna en það mun rannsóknin leiða í ljós að sögn Olav Unnestad, lögreglustjóra í Indre Østfold, sem enn fremur staðfestir við norska ríkisútvarpið NRK að systurnar hafi verið í vist á stofnun áður en þær hurfu þaðan um helgina.

Játar ekki sekt

Foreldrar systranna hafa heimilað fjölmiðlum að birta af þeim myndir sem teknar voru á aðfangadagskvöld, aðeins fáeinum dögum áður en þær létust nú um helgina, og hefur TV2 eftir réttargæslulögmanni foreldranna að þær hafi verið hvers manns hugljúfi og ekki verðskuldað þau örlög er biðu þeirra.

Grunaði játaði ekki sekt í málinu er héraðsdómari bað hann að taka afstöðu í þeim efnum auk þess sem hann mótmælti gæsluvarðhaldsúrskurðinum á þeirri forsendu að hann hefði ekkert af sér brotið. Frá þessu segir Knut Ditlev-Simonsen, verjandi mannsins, í samtali við NRK.

Grunaði hefur áður hlotið refsidóm og Ditlev-Simonsen staðfestir að skjólstæðingur hans hafi marga hildina háð við vímuefni. „Hann er algjörlega miður sín og niðurbrotinn,“ segir verjandinn. Annar maður var einnig handtekinn í íbúðinni en lögregla sá ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum.

NRK

VG

Dagbladet

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert