Afi og amma enn undir rústunum – óttast 20.000 andlát

Björgunarmenn í rústum hruninna húsa í sýrlenska þorpinu Jandaris í …
Björgunarmenn í rústum hruninna húsa í sýrlenska þorpinu Jandaris í morgun. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin óttast að allt að 20.000 mannslíf hafi tapast í hamförunum. AFP/Mohammes Al-Rifai

Tyrkneski háskólaneminn Barış Yapar reynir sitt besta til að halda ró sinni, hlúa að foreldrum sínum, en umfram allt halda í vonina.

Síðan í gær hefur hann setið inni í bíl ásamt foreldrum sínum og reynt þannig að halda hita á sér og þeim á meðan þau bíða þess í örvæntingu að viðbragðsaðilar á jarðskjálftasvæðinu í Samandag í Tyrklandi komi á vettvang og grafi föðurafa Yapars og -ömmu út úr rústum húss þeirra sem þau liggja grafin undir.

Yapar ræddi við kanadíska ríkisútvarpið CBC um miðnætti í gær að tyrkneskum tíma og lýsti því hvernig fjölskylda hans og nágrannar afa hans og ömmu biðu á bílastæðinu eftir að einhver hjálp bærist, einhver á stórtækri vinnuvél sem hefði annað og meira en berar hendur til að grafa í rústirnar.

„Við fáum ekki þá hjálp sem okkur ætti að berast,“ segir Yapar við Nil Köksal, fréttamann CBC sem tekur viðtalið, „við stöndum bara hérna í myrkrinu og allir eru að reyna að gera það sem hægt er. Nú eru liðnar nítján klukkustundir og afi og amma eru enn þá undir rústunum.“

Þúsundir við björgunarstörf

Nú er staðfest að rúmlega 5.000 séu látnir í kjölfar jarðskjálftans á mörkum Tyrklands og Sýrlands í gær sem olli gríðarlegu tjóni í báðum löndunum, en að sögn Catherine Smallwood, yfirmanns hamfaradeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í Evrópu, er full ástæða til að óttast að þegar upp verði staðið reynist allt að 20.000 líf hafa glatast í hamförunum.

Þúsundir hjálparstarfsmanna vinna nú að rústabjörgun að sögn embættismanna og einbeita sér að svæðum næst upptökum skjálftans. Samandag, þar sem Yapar og fjölskylda hans bíða milli vonar og ótta eftir að einhver komi og bjargi afa og ömmu, er 200 kílómetra frá upptökunum en þó hrundu hús þar eins og spilaborgir í þessum 7,8 stiga sterka jarðskjálfta.

Fólk reynir eftir megni að grafa með berum höndum eða léttum verkfærum en sú vinna sækist löturhægt. „Ef þú átt ekki útbúnað eða hefur sambönd þarftu bara að bíða hérna í myrkrinu og vona að þeir komi að lokum,“ segir Yapar.

Drógu lík ástvina úr rústum

Fjölskyldan var í fastasvefni þegar skjálftinn reið yfir klukkan fjögur að staðartíma aðfaranótt gærdagsins. Yapar og foreldrar hans stukku út úr rúmunum og komu sér út úr húsinu. Þau óku um 500 metra heim til afans og ömmunnar og komu þá að húsi þeirra í rústum auk tveggja húsa við hlið þess.

Fylgdist fjölskyldan skelfingu lostin með nágrönnum draga lík ástvina sinna út úr rústunum, en engin leið reyndist að grafa neitt í rústum húss afans og ömmunnar án verkfæra eða vinnuvéla.

„Þetta var alveg skelfilegt. Ég hugsa að ég skilji ekki einu sinni enn sem komið er hvaða þýðingu þetta hefur fyrir mig eða hvernig mér líður. Það mun taka tíma,“ segir Barış Yapar við CBC.

CBC

Telegraph

Reuters

The Guardian

mbl.is