Líkfundur í íbúð vekur grunsemdir

Fjölskylda Espens Simonsens fann lík hans á heimili hans í …
Fjölskylda Espens Simonsens fann lík hans á heimili hans í Skudeneshavn á mánudagsmorgun en á því eru áverkar sem lögregla telur hæpið að Simonsen hafi getað veitt sér sjálfur. Ljósmynd/Norska lögreglan

Lögreglan í suðvesturumdæminu í Noregi nýtur aðstoðar rannsóknarlögreglunnar Kripos við rannsókn voveiflegs dauðsfalls 32 ára gamals manns, Espens Simonsens, sem fannst látinn á heimili sínu í Skudeneshavn á eynni Karmøy, úti fyrir Haugesund, á mánudagsmorgun.

Rannsakar lögregla líkfundinn með þeim formerkjum að refsivert athæfi hafi dregið Simonsen til dauða en áverkar á líki hans þykja ekki þess eðlis að hann hafi getað veitt sér þá sjálfur.

„Dánarorsökin liggur ekki ljós fyrir enn þá,“ segir Elsa Lokna, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar á svæðinu, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að lögregla telji andlátið grunsamlegt vegna áverkanna. Við greinum frá þessu svo fólki sé kunnugt um það,“ segir fulltrúinn, en Skudeneshavn er lítið samfélag syðst á Karmøy, íbúar þar voru rúmlega 3.300 í byrjun árs í fyrra.

Skudeneshavn á Karmøy úti fyrir bænum Haugesund í Rogaland við …
Skudeneshavn á Karmøy úti fyrir bænum Haugesund í Rogaland við vesturströnd Noregs. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jorunn

Hefur enginn verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er og böndin berast heldur ekki að neinum á þessu stigi málsins. Lögregla er við rannsóknir á vettvangi og hefur lokað fyrir aðgang að svæði umhverfis íbúðina. Hefur hún fundið hlut eða hluti í íbúðinni sem talið er að tengist andláti Simonsens.

Að sögn Lokna hafa lögreglu borist vísbendingar sem beint hafa rannsókninni í nýjar áttir, svo sem hvað snertir yfirheyrsluboðanir. Ekki er ljóst hve lengi Simonsen hafði legið látinn í íbúð sinni þegar fjölskylda hans fann hann á mánudaginn.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert