Sjóræningjar um borð í dönsku skipi

Danska skipið Monjasa Reformer.
Danska skipið Monjasa Reformer. AFP

Sjóræningjar ruddust um borð í danskt olíuflutningaskip í Gíneuflóa um helgina.

Að sögn eigandans Monjasa hefur ekkert samband náðst við 16 manna áhöfnina.

Skipið, Monjasa Reformer, siglir undir líberískum fána og er 135 metra langt. Atvikið átti sér stað á laugardaginn, um 140 sjómílum vestur af Port Pointe-Noire í Lýðveldinu Kongó.

Eigandi skipsins bætti við að áhöfnin hefði leitað skjóls í sérstöku neyðarrými skipsins þegar sjóræningjarnir komu um borð.

Monjasa Reformer.
Monjasa Reformer. AFP

„Samskiptaleiðir liggja niðri og við erum að vinna með yfirvöldum á svæðinu í að koma á samskiptum til að skilja betur stöðuna um borð og útvega allan þann stuðning sem áhöfnin þarf á að halda til að komast í gegnum þessa hræðilegu atburði,“ sagði Monjasa.

Gíneuflói er 5.700 kílómetra langur og nær frá Senegal til Angóla. Skip hafa áður lent í vandræðum þar en dregið hefur úr árásum síðustu árin.

Ráðist var á þrjú skip á þessu svæði árið 2022 en þau voru 26 árið 2019.

mbl.is