Fyrstur dæmdur í máli vegna kvik­myndarinnar „Rust“

Alec Baldwin er einn þeirra sem hefur verið kærður fyrir …
Alec Baldwin er einn þeirra sem hefur verið kærður fyrir vanrækslu vegna voðaskotsins. Hann hefur ítrekað sagst saklaus. AFP

Aðstoðarleikstjóri og öryggissamhæfingarstjóri kvikmyndarinnar „Rust“ hefur verið dæmdur fyrir að meðhöndla skotvopn á hættulegan máta. Vegna þess að hann tók tilboði um játningarkaup hlaut hann sex mánaða skilorðsbundinn dóm og skuldbatt sig til þess að bera vitni í frekari réttarhöldum vegna málsins.

Í október 2021 var kvikmyndatökukonan Halyna Hutchins skotin til bana á meðan á upptökum kvikmyndarinnar Rust“ stóð. Leikstjóri myndarinnar, Joel Souza, særðist einnig þegar skotinu var hleypt af. Aðstoðarleikstjórinn, Dave Halls, er sá fyrsti til þess að vera sakfelldur vegna málsins.

Leikarinn Alec Baldwin, sem fór með aðalhlutverk í myndinni er einn þeirra sem ákærður hefur verið fyrir verknaðinn. Formleg ákæra fyrir manndráp af gáleysi var gefin út á hendur Baldwin í janúar síðastliðnum.

Sekt og átján mánuðir í fangelsi 

Greint er frá því að Halls hafi sagt byssuna örugga til notkunar áður en að hann afhenti Baldwin hana. Áður hafi vopnavörður kvikmyndarinnar, Hannah GutierrezReed  hlaðið byssuna og afhent Halls sem þyrfti að ganga úr skugga um að ekki væri um alvöru byssukúlur að ræða.

Verði Baldwin og Gutierrez-Reed sakfelld í málinu eiga þau yfir höfði sér átján mánaða fangelsisvist og fimm þúsund dollara eða rúmlega 698.000 króna sekt. Baldwin hefur ítrekað sagst saklaus og heldur því fram að honum hafi verið sagt að byssan væri ekki hlaðin. 

mbl.is