Vilja beita sektum gegn enskuvæðingu

Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu.
Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu. AFP/John Thys

Stjórnvöld á Ítalíu vilja beita sektum til að hemja enskuvæðingu í opinberum samskiptum.

Í nýju frumvarpi, sem nýtur stuðnings Giorgia Meloni forsætisráðherra, er kveðið á um að hver sá sem gerist sekur um að nota orð eða setningar á erlendri tungu í opinberum samskiptum, geti átt yfir höfði sér sekt upp á allt að hundrað þúsund evrur, fjárhæð sem nemur tæpum 15 milljónum íslenskra króna. CNN greinir frá.

Hver sá sem sinnir störfum fyrir hið opinbera verður því að hafa fullt vald á ítölsku í bæði töluðu og rituðu máli.

Beint að enskuvæðingu

Þó svo að frumvarpið kveði á um öll erlend tungumál er því sérstaklega beint að notkun enskunnar eða enskuvæðingar sem, samkvæmt drögum að frumvarpinu, gerir lítið úr ítölskunni. Þá geri illt verra að Bretar hafi gengið úr Evrópusambandinu.

Þá kveður frumvarpið m.a. á um að enska verði hvergi sjáanleg í opinberum skjölum og samningum. Á það m.a. við um skammstöfun og heiti starfstitla innan fyrirtækja.

Nær frumvarpið einnig til erlendra samtaka og stofnana sem starfa í landinu en þau verða að hafa eintök af öllum samningum og reglugerðum á ítölsku.

mbl.is