Þóttist vera barnaníðingur á netinu

Lögreglan þóttist vera maður sem bar notandanafnið Ninjaskjaldbakan til þess …
Lögreglan þóttist vera maður sem bar notandanafnið Ninjaskjaldbakan til þess að finna fleiri afbrotamenn. AFP

Lögreglan í Sviss þóttist í mörg ár vera sakfelldur barnaníðingur á netinu, og tókst með þeim hætti að bera kennsl á yfir 2.200 kynferðisafbrotamenn og neytendur barnakláms.

Svissneska lögreglan greindi fyrr í dag frá leyniaðgerðinni „Ninjaskjaldbaka“ sem hefur verið í gangi undanfarin ár. Aðgerðin gerði lögreglunni í héraðinu Aargau kleift að handtaka afbrotamenn í Sviss og öðrum löndum.

Aðgerðin hófst árið 2012, þegar lögreglan var upplýst um einstakling sem var að dreifa klámefni af börnum á netinu undir notandanafninu „Ninjaskjaldbaka“ (e. Ninja Turtle). Lögreglan fann notandann, sem reyndist vera 62 ára gamall maður frá Þýskalandi. Hann var handtekinn og seinna sakfelldur árið 2015. Þá datt lögreglunni það ráð í hug að notast við reikning mannsins til þess að finna aðra barnaníðinga á netinu.

Að sögn lögreglunnar skilaði aðgerðin afar góðum árangri. Borin voru kennsl á 2.200 afbrotamenn og hefur fólk verið handtekið víða um veröld með aðstoð tálbeitunnar, þar á meðal í Króatíu, Brasilíu, Frakklandi og á Spáni. Margir í þeim hópi voru ekki aðeins neytendur barnakláms heldur einnig barnaníðingar sjálfir.

mbl.is