Stungin til bana í íbúð í Ósló

Teisen-hverfið er í Grorud-dalnum í Ósló. Þar var kona stungin …
Teisen-hverfið er í Grorud-dalnum í Ósló. Þar var kona stungin til bana í íbúð í gærkvöldi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Vidariv

Kona á sjötugsaldri lést af sárum sínum í gærkvöldi eftir að hafa verið stungin með einhvers konar eggvopni í Teisen í norsku höfuðborginni Ósló. Maður á fertugsaldri er í haldi lögreglu, grunaður um verknaðinn.

„Við höfum hafið manndrápsrannsókn sem byggð er á hlutum sem fundust á vettvangi,“ segir Christian Hatlo, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Lögreglunni barst tilkynning laust fyrir miðnætti í gærkvöldi að norskum tíma um að manneskja hefði orðið fyrir líkamstjóni í íbúð í hverfinu. Reyndist ástand hennar mjög alvarlegt þegar lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang og var hún úrskurðuð látin á vettvangi að sögn Gjermund Stokkli varðstjóra.

Kunnur lögreglu frá fyrri málum

Var hinn grunaði þá á staðnum og var tekinn höndum en lögregla getur enn sem komið er ekkert gefið upp um hugsanlega ástæðu að baki verknaðinum. Segir Hatlo ákæruvaldsfulltrúi þó ljóst að fólkið hafi þekkst.

Verður maðurinn yfirheyrður í dag og honum útvegaður verjandi en lögregla kannast við hann frá fyrri málum. Tæknideild er enn að störfum á staðnum og ræðir lögregla nú við nágranna sem hugsanleg vitni.

NRK

Aftenposten

VG

mbl.is