„Partur af náminu að taka til“

Jóhann Lind Ringsted, sem hefur verið búsettur í Japan í tólf ár, segir í samtali við mbl.is að Japanir myndu líklega ekki sætta sig við það hvernig ruslamálum hefur verið háttað í Reykjavíkurborg síðustu mánuði.

Undanfarna mánuði hafa verið fluttar fréttir af ólestri í sorphirðu í Reykjavík en í byrjun sumars hófst innleiðing á nýju sorphirðukerfi. Blaðamaður mbl.is ákvað að slá á þráðinn til Jó­hanns og for­vitn­ast um hvernig sorp­hirðumál­um væri háttað í Jap­an, en Jap­an­ir hafa lengi verið þekkt­ir fyr­ir snyrti­mennsku og heyr­ir rusl á víðavangi til und­an­tekn­inga. 

Jó­hann er fædd­ur og upp­al­inn Borg­nes­ing­ur sem fór í skipti­nám til Jap­ans á þriðja náms­ári sínu í japönsku við Há­skóla Íslands, „þetta endaði með því að ég fór ekk­ert heim“.

Í dag starfar hann sem enskukenn­ari og er kvæntur Ayaka Ringsted en sam­an eiga þau hina níu ára gömlu Hönnu Lind. Þau búa í borg­inni Sendai í Norðaust­ur-Jap­an sem er stærsta borg Tōhoku-svæðis­ins. Íbúa­fjöldi borg­ar­inn­ar er um 1,5 millj­ón­ir manna. Borg­in varð fyr­ir mikilli eyðileggingu er jarðskjálfti sem var 9 að stærð reið yfir í mars árið 2011.

Ruslageymslur í hverfunum

Í hverf­inu hjá Jó­hanni er sorp­mál­um þannig háttað að hvert heim­ili flokk­ar sitt rusl og fer síðan með það í einskon­ar ruslageymsl­ur sem eru í einni götu í hverf­inu. Í mynd­skeiðinu hér að ofan má sjá slíka geymslu.

Á efri myndinni má sjá ruslageymslurnar. Á þeirri neðri má …
Á efri myndinni má sjá ruslageymslurnar. Á þeirri neðri má sjá Jóhann Lind Ringsted, Hanna Lind Ringsted og Ayaka Ringsted. Samsett mynd

„Það fer listi á milli hús­anna og alltaf í hverri viku sér einn um að kíkja eft­ir geymsl­unni,“ seg­ir Jó­hann og bæt­ir við að því sé alltaf ein­hver sem sjái um að um­gengn­in sé í lagi.

„Það eru mjög ákveðnar regl­ur um hvenær má henda rusli og hvernig rusli.“

Ein­ung­is er leyfi­legt að henda rusl­inu á milli 6 og 8:30 á morgn­anna. Tvisvar sinn­um í viku er al­mennt rusl sótt og einu sinni í viku er end­urunnið sorp sótt, þ.e.a.s. plast og flösk­ur. Papp­ír er sótt­ur í ann­arri hverri viku.

Jó­hann seg­ir að krák­ur kom­ist ein­staka sinn­um í ruslið og rífi allt í tætl­ur og því þurfi að passa vel að loka ruslið af. Þess vegna sé meðal ann­ars svo stutt­ur tími sem íbú­ar hafa til að henda rusl­inu.

Þá taka sum­ar versl­an­ir og fyr­ir­tæki einnig við sorpi til end­ur­vinnslu og fær fólk inneign hjá versl­un­inni í staðinn. Íbúar geti því nýtt sér það ef þeir gleyma að fara með ruslið á til­sett­um tíma eða ein­fald­lega til að safna sér inn­eign.

„Ekki séns að geyma eitthvað úti í langan tíma“

Ekki er tekið á móti líf­rænu rusli við sorp­hirðuna en Jó­hann seg­ir að marg­ir Jap­an­ir séu með eig­in moltu­gerð í görðunum sín­um. Marg­ir rækta eig­in græn­meti og ávexti og nýta til þess molt­una.

Þannig að það eru í raun eng­ar tunn­ur við hús fólks eins og er á Íslandi?

„Nei, það er ekki hér. Í fyrsta lagi held ég að sé al­veg ómögu­legt fyr­ir [sorp­hirðufólk] að fara út í hvert hús og ná í tunn­ur – þetta er nátt­úru­lega miklu fljót­farn­ara að þeir bara fari inn á þetta svæði og taki ruslið og fari síðan inn á næsta […] Svo myndi maður kannski ekki taka eft­ir neinu yfir vet­ur­inn að hafa ruslið svona úti, en hérna á sumr­in í rak­an­um, ekki séns að geyma eitt­hvað úti í lang­an tíma. Ekki séns,“ seg­ir Jó­hann og nefn­ir til dæm­is að eft­ir hálf­an dag verði lykt­in af opn­um katta­mat óbæri­leg og alls kon­ar kvik­indi kom­inn í hann.

„Ég get ekki ímyndað mér að vera með ein­hvern gám úti, fylla hann af rusli og að hann verði ekki tek­inn í öll­um þess­um raka,“ seg­ir hann og bæt­ir við á þess­um árs­tíma sé raka­stigið um 70 til 80% yfir dag­inn.

Jó­hann minn­ist á frétt­ir frá Reykja­vík þar sem ruslagám­ar hafa sums staðar ekki verið tæmd­ir í mánuð.

„Það er bara óhugn­an­legt að hugsa til þess,“ seg­ir hann og hlær. „Það verður að minnsta kosti að tæma einu sinni í mánuði.“

Skólakerfið lykilinn

Jó­hann seg­ir Jap­ani því ein­fald­lega hafa sam­mælst um að henda rusl­inu sínu í geymsl­urn­ar á sóma­sam­leg­um tíma. Marg­ir gera það á leið í vinnu en Hanna, dótt­ir Jó­hanns, hef­ur það verk­efni að henda rusl­inu þeirra áður en hún fer í skól­ann á morgn­ana.

„Þetta er allt annað viðhorf en maður þekkti frá því í gamla daga. Maður var kannski í bíl með vini sín­um sem opnaði rúðuna og henti ein­hverri flösku út og sagði: „Ég er að búa til vinnu“. En núna sé ég kannski eitt­hvað smá rusl úti og hugsa: „Æ, ætti ég að taka þetta upp kannski“.“

Spurður af hverju Jap­an­ir séu svo snyrti­leg­ir seg­ir Jó­hann ástæðuna fyrst og fremst vera skóla­kerf­inu að þakka. Börn­um er kennt strax að taka til eft­ir sig og hafa hreint í kring­um sig.

„Þegar það er búið að venja börn á þetta þá er það bara sjálfsagt að taka til eft­ir sig og ekki skilja eft­ir sig rusl sem er eitt­hvað sem ég hef aldrei séð áður heima á Íslandi. Hér er það bara part­ur af nám­inu að taka til.“

Jóhann og fjölskylda.
Jóhann og fjölskylda. Ljósmynd/Aðsend

Taka til eftir tónleika

Blaðamaður minnist á myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum er HM í knattspyrnu karla í Katar stóð yfir í nóvember þar sem japanskir áhorfendur sáust tína upp rusl á leikvöngunum. Jóhann segir þá umræðu koma upp á hverju HM.

Hann minn­ist á stór­tón­leika sem hann fór á sum­arið 2016 nærri Tókýó. „Það var al­veg rosa­lega margt fólk þar og svaka stór­ir tón­leik­ar. Svo sit ég eft­ir á og hugsa hvað þetta voru frá­bær­ir tón­leik­ar og allt í einu eru komn­ir pok­ar út um allt og all­ir byrja að pikka upp ruslið. Þá hugsaði maður: „Já, auðvitað. Við þurf­um að taka til hérna“. Það er eng­inn sem stend­ur upp og seg­ir: „Ég ætla ekki að gera þetta“.“

Blaðamaður og Jó­hann sam­mæl­ast því um að Íslend­ing­ar ættu að taka sér Jap­ani til fyr­ir­mynd­ar er kem­ur að rusla­mál­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert