Sýslumaður hitti Jagger

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Ísafirði, hitti Mick Jagger í …
Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Ísafirði, hitti Mick Jagger í dag. Morgunblaðið/Sigurjón J. Sigurðsson

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður á Ísafirði hefur allt frá árinu 1964 verið einlægur aðdáandi Rolling Stones. Hann hefur áður hitt Mick Jagger en aldrei rætt við hann persónulega fyrr en um hádegið í dag er þeir ræddust við á götuhorni á Ísafirði.

Ólafur Helgi sagðist í spjalli við fréttavef Morgunblaðsins hafa haft sterkan grun um að Jagger hefði komið til landsins í gær, en sér hefði ekki dottið í hug Ísafjörður í því sambandi. Hann sagði að Jagger væri í fríi ásamt vinum sínum og hefði Ísland og norðanverðir Vestfirðir orðið fyrir valinu. Ólafur sagði að þetta hefði verið óvænt, en sérstaklega ánægjulegt fyrir sig. Greinilega hefði verið búið að gefa Jagger upplýsingar um hinn mikla áhuga hans á Rolling Stones. „Þegar ég kom, fyrir götuhornið og gekk í flasið á Jagger og fleira fólki var aðeins sagt: „Þarna er hann"." Ólafur Helgi heyrði fyrstu tvö lögin með Rolling Stones árið 1964 og hefur síðan farið á fjöldann allan af tónleikum með Rolling Stones víða um heim og skrifað greinar um hljómsveitina, m.a. í Morgunblaðið. Sýslumaður var spurður hvað hann hefði hugsað áður en hann fór að sofa í gærkvöldi vitandi að Jagger væri sennilega á landinu. „Ég velti því fyrir mér hvort það yrði flugveður á Ísafirði, því ég ætlaði að vera tilbúinn til að fljúga ef á þyrfti að halda," sagði Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og Rolling Stones-aðdáandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert