Íkveikjusprengja rannsökuð

Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar sést hér skoða sprengjuna sem fannst í gær.
Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar sést hér skoða sprengjuna sem fannst í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er búið að eyða sprengjunni sem fannst í húsagrunni í Furugrund í Kópavogi í gær, en sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar vinna nú að því að rannsaka hana. Engar merkingar eru á sprengjunni en afar líklegt þykir að um bandaríska íkveikjusprengju sé að ræða frá seinna stríði.

Sigurður Ásgrímsson, fagstjóri sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir líklegt að bandarísk sprengjuflugvél, sem hafi annað hvort lent í vandræðum í flugtaki eða í lendingu vegna vélarbilunar eða ísingar, hafi þurft að losa sig við sprengjuna. Vélar sem hafi þurft að nauðlenda hafi eðlilega ekki mátt lenda með sprengjur hangandi neðan í sér.  „Ég hugsa að hún sé þannig til komin þessi sprengja, á þessu svæði,“ segir Sigurður.

 Aðspurður segir Sigurður að menn geti aldrei verið 100% vissir hvort svo gamlar sprengjur sé enn virkar eður ei. Því hafi menn gætt ýtrustu varúðar í gær, enda fannst hún í fjölmennu íbúðarhverfi. „Á meðan maður er ekki 100% öruggur þá þetta ávallt afgreitt sem virk sprengja með sprengiefni í.“

Um svokallaða 100 punda (50 kg) sprengju er að ræða. Hann segir að það hafi verið vökvi í henni en ekki TNT, þetta hafi verið svokölluð „fuel air bomb“ eða íkveikjusprengja. Slíkar sprengjur hafi fundist hér á landi áður.Að sögn Sigurðar var enginn vökvi lengur í sprengjunni. Hann hafi líklegast gufað upp og/eða lekið út um gat sem er á skelinni.

„Við höfum fengið nokkrar svona sprengjur upp úr Skerjafirðinum,“ segir hann og bendir á að það sé sjaldgæft að flugvélasprengjur finnist á landi. Þær hafi hins vegar oft komið í veiðarfæri skipa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert