Allt gekk samkvæmt áætlun

„Það var skotið á kveikibúnað sprengjunnar og hann með því gerður óvirkur,“ sagði Guðmundur Ingi Rúnarsson varðstjóri hjá lögreglunni stuttu eftir að sprengisérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu gert sprengju, sem fannst í húsgrunni í Furugrund í dag, óvirka. „Þetta gekk allt samkvæmt áætlun.“

Mörgum íbúum við Furugrund í Kópavogi brá eflaust í brún þegar þeir fréttu af því að sprengja frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar hefði fundist í hverfinu í dag.

Lögreglan girti af stórt svæði og meinaði óviðkomandi aðgang þegar fréttir bárust af því að torkennilegur hlutur hefði fundist þar sem verið er að grafa grunn að íþróttahúsi og félagsaðstöðu fyrir HK á svæðinu.

Ekki leið á löngu þar til sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru mættir í hverfið. Eftir að hafa metið aðstæður var ákveðið að gera sprengjuna óvirka á staðnum og var henni komið fyrir í gröfuskóflu. Stuttu síðar heyrðist hvellur og þar með var kveikibúnaðurinn orðinn óvirkur.

Í framhaldinu var sprengjan flutt af svæðinu og verður henni komið fyrir á öruggum stað þar sem henni verður eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert